Blak: Upphaf vegferðar við að byggja upp ný lið

Keppni í efstu deildum karla og kvenna í blaki hefst á ný um helgina eftir hlé vegna samkomutakmarkana. Lið Þróttar heimsækja HK. Þjálfari þeirra er ánægður með hvernig æfingar hafa gengið og er bjartsýnn fyrir tímabilið. Miklar breytingar hafa orðið á liðum Þróttar frá í vor.

„Ég held að allir sem tengjast íslensku blaki séu spenntir yfir að keppni sé að hefjast á ný. Við hlökkum til að finna adrenalínið flæða og spila gegn bestu liðum landsins,“ segir Gonzalo Garcia, þjálfari bæði kvenna og karlaliðs Þróttar.

Leiktíðin hófst í lok september og náði karlaliðið þá að spila þrjá leiki en kvennaliðið engan. Kvennaliðið spilar tvo leiki um helgina en karlaliðið einn.

Karlaliðið varð deildarmeistari, í fyrsta sinn, þegar keppni var hætt í vor. Síðan hafa orðið miklar breytingar á leikmannahópnum. Liðið teflir meðal annars fram nýjum uppspilara, Paco Barrionuevo og nefnir Gonzalo hann sem dæmi um unga leikmenn sem á næstunni muni fá eldskírn í fullorðinsblaki.

Enn meiri breytingar hafi orðið á kvennaliðinu og sæki Þróttur bæði í sitt eigið yngri flokka starf auk þess að hafa fengið tvo nýja leikmenn frá Spáni, Maiu sem reyndar spilaði með Fjallabyggð í fyrra og Maríu Jinenez sem spilar miðju í blokkinni.

Skref fyrir skref

Við bætist að tímabilið er hið fyrsta sem Gonzalo þjálfar í Neskaupstað. Hann segir æfingar hafa gengið vel og liðin brugðist vel við hans áherslum í þjálfuninni. Mikilvægt sé þó að stilla væntingum í hóf og hafa augun á langtímamarkmiði.

„Við ætlum okkur að taka þetta skref fyrir skref og byggja upp leikmenn til lengri tíma. Þetta tímabil mun því markast af kynslóðaskiptum og að nýir leikmenn öðlast keppnisreynslu. Við ætlum okkur að læra af þeim bestu, veita andstæðingum okkar verðuga keppni í hverjum leik og sæta færis til að veita þeim skráveifu.

Við höfum innleitt margar breytingar og aðlaga leik okkar þannig að styrkleiki hvers leikmanns skili sér. Það tekur tíma áður en sigrarnir fara að skila sér, lið eiga ekki alltaf auðvelt með að spila eins og þjálfarinn vill. Mitt fyrsta markmið er að gera liðin stöðug og byggja þau upp sem lið. Ég vil hins vegar segja að framfarir beggja liða hafa verið framúrskarandi.

Við ætlum okkur auðvitað að vinna þessa þrjá leiki, en við vitum að við erum að fara að mæta liðum sem eru meðal þeirra allra bestu hérlendis. Við viðrum mótherja okkar og ætlum okkur að læra en mestu skiptir að við spilum blak eins og við viljum sem lið. Um leið og það og það gengur upp verða sigrarnir innan seilingar.“

Mikilvægt að hlúa að barnastarfinu

Gonzalo segist þekkja vel til sigurhefðarinnar í Neskaupstað. Staðan sé hins vegar nú að nánast alveg ný lið séu að koma upp og þau þurfi tíma. „Metnaðurinn til að vera liðið sem önnur íslensk blaklið bera sig saman við er enn til staðar, en við vitum að bæði lið hafa misst mikið þannig við þurfum að byrja nánast aftur frá byrjun.

Við vitum að félagið hefur sínar takmarkanir, margir leikmenn fara annað í nám eða vegna vinnu en það er eitthvað sem við þurfum að takast á við. Þess vegna verður að hafa hér efnilega leikmenn og hlúa að þeim frá 8-9 ára aldri.

Það er lykilatriði að leikmenn Þróttar hafi metnað til að verða góðir í blaki, hvort sem er fyrir félagið eða landsliðin og við reynum að innræta þeim hve falleg íþrótt blakið sé, að þeir finni fyrir sterkum tengslum við félagið og séu stoltir yfir að klæðast gulu treyjunni.“

Þróttarar fagna deildarmeistaratitilinum síðasta vor. Mynd: Blakdeild Þróttar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.