Blak: Tinna Rut valin í úrvalsliðið á Evrópumóti smáþjóða

Tinna Rut Þórarinsdóttir úr Neskaupstað var valin annar af bestu kantsmössurum Evrópumóts smáþjóða í blaki sem fram fór í Lúxemborg um helgina. Íslenska landsliðið vann mótið.

„Ég held að við höfum komið sjálfum okkur á óvart með að vinna þetta mót. Við fengum bara um tvær vikur í undirbúning og æfingar saman fyrir það.

En við höfum geggjaðan leikmannahóp sem gaf sig allan í verkefnið og gerði þetta að veruleika. Stelpurnar eru ekki bara góðar í blaki heldur var alltaf góð stemming hjá okkur og mikið gaman sem gerir þetta allt miklu skemmtilegra,“ segir Tinna Rut.

Mótið er strembið, spilaðir fjórir leikir á þremur dögum. Liðin leika fyrst í tveimur þriggja liða riðlum. Ísland byrjaði á að vinna Norður-Írland 3-0 en tapaði síðan 2-3 fyrir Skotlandi. Í undanúrslitum vann það Lúxemborg í oddahrinu og hefndi sín loks á Skotum með sigri í oddahrinu í úrslitum. Að auki sendu Malta og Írland lið til keppni.

„Mótið var mjög skemmtilegt, þetta var mikil keyrsla og tók vel í en þreytan gleymdist þegar við byrjuðum að spila,“ segir Tinna um mótið.

Hún var að lokum valin í úrvalslið mótsins og fékk viðurkenningu sem annar af tveimur bestu kantsmössurunum. „Ég spilaði alla leikina nema þann fyrsta. Þar rúllaði þjálfarinn meira á liðinu eftir að við náðum góðu forskoti í fyrstu hrinu.

Viðurkenning sem þessi er mér mikils virði. Hún sýnir að ég stóð mig vel í mínu hlutverki í liðinu og það er gaman að sjá alla vinnuna skila sér.“

Áfram hjá Aftureldingu


Tinna Rut, sem alin er upp í Þrótti Neskaupstað, var nú að ljúka sínu öðru tímabili hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ. Liðið spilaði til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn við KA en beið lægri hlut í einvíginu eftir oddaleik.

„Tímabilið var nokkuð sveiflukennt. Ég fékk stærra hlutverk í liðinu því við misstum út sterka leikmenn. Við byrjuðum tímabilið mjög vel og unnum mikilvæga leiki í deildinni, síðan kom smá kafli þar sem okkur gekk ekki eins vel.

Við náðum ekki í úrslitakeppni bikarsins, sem voru mikil vonbrigði því liðið okkar átti klárlega heima í þeirri keppni. Í lok tímabils þegar við byrjuðum úrslitakeppnina þá fór liðið að spila eins og það getur. Því miður náðum við ekki titlinum en við unnum vel fyrir silfrinu sem kannski ekki margir bjuggust við.

Ég geri ráð fyrir að vera áfram hjá Aftureldingu næsta tímabil. Við enduðum tímabilið á uppleið og mig langar að halda áfram á þeirri braut.“

Tinna Rut með viðurkenninguna og meistarabikarinn. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.