Orkumálinn 2024

Blak: Þróttur heldur toppsætinu eftir sigur á Stjörnunni

Þróttur Neskaupstað er í fyrsta sæti efstu deildar kvenna eftir tvo toppslagi við Stjörnuna um síðustu helgi. Lykilmaður í liði Þróttar segir unga leikmenn liðsins enn eiga margt eftir ólært.

Liðin áttu upphaflega að leika föstudag og laugardag en þar sem Stjörnuliðið komst ekki niður eftir fyrr en á laugardag var leikið laugardag og sunnudag.

Stjarnan varð fyrri leikinn 0-3 eða 13-25, 25-27 og 24-26 í hrinum. Fyrsta hrinan var afleit hjá Þrótti en síðan missti liðið niður unnar hrinur eftir að hafa verið 24-21 og 24-20 yfir í hinum.

„Fyrsta hrinan var afleit, við vorum ekki með einbeitingu. Það fór allt í flækju út af veðrinu. Leiknum á laugardaginn seinkaði og við hituðum upp í rúman klukkutíma. Það er engin afsökun en það hjálpar ekki,“ segir Ana Vidal, leikmaður Þróttar um fyrri leikinn.

„Við vorum í vandræðum með að ljúka sóknunum og uppgjafirnar sem vanalega eru sterkar hjá okkur voru það ekki. Það virtist sem við hefðum ekki trú á verkefninu.

Það verður ekki af Stjörnuliðinu tekið að það spilaði vel. Sofie Sjöberg átti sérlega góðan leik, hún virtist gera hinar betri.“

Þróttur vann hins vegar seinni leikinn 3-0 eða 25-18, 25-19 og 25-18 í hrinum. Þá var fyrrnefnd Sjöberg ekki með.

„Við spiluðum meira eins og lið enda dreifðist stigaskorið nokkuð jafnt. Við vorum ákveðnari, það var sem við vildum hefna ófaranna,“ sagði Ana sem tiltók sérstaklega að María Bóel Guðmundsdóttir hefði átt góðan dag.

Liðin voru fyrir leikina í efstu tveimur sætum deildarinnar. Þróttur hélt efsta sætinu með sigrinum á sunnudag en Afturelding laumaði sér upp á milli liðanna. Síðustu leikir Þróttar fyrir jól verða eftir Þrótti Reykjavík eftir rúma viku en Reykjavíkurliðið er á botni deildarinnar.

Ana vonast til að Þróttur verði í efsta sætinu yfir jólin. „Við verðum að halda áfram og efla okkur andlega. Við erum með yngsta liðið og stundum missum við einbeitinguna og traustið innan liðsins. En því liðið er svona ungt þá tekur það miklum framförum á stuttum tíma.“

Paula del Olmo Gomez var stigahæst hjá Þrótti í báðum leikjum en Erla Rán Eiríksdóttir, sem alin er upp í Neskaupstað, skoraði mest fyrir Stjörnuna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.