Blak: Þróttur afgreiddi Völsung

Þróttur Neskaupstað heldur toppsætinu í Mizuno-deild kvenna í blaki eftir 3-0 sigur á Völsungi í Neskaupstað í gærkvöldi. Framundan eru erfiðir leikir gegn Aftureldingu sem að líkum ráða hvort liðið verður deildarmeistari.

Völsungur er á sínu öðru tímabili í efstu deild en hefur miðað við það átt ágætis tímabil og haft fjórða sætið, sem veitir sæti í úrslitakeppninni, í seilingarfjarlægð.

Gestirnir byrjuðu leikinn í gærkvöldi betur og komust í 7-12. Þróttur svaraði þá fyrir sig og jafnt var á flestum tölum upp í 20-20. Þá tók Þróttur aftur á rás og vann hana 25-21.

Þróttur hafði síðan yfirburði í annarri og þriðju hrinu og vann þær 25-14 og 25-20. Paula Gomez var stigahæst hjá Norðfjarðarliðinu með 19 stig og Helena Kristín Gunnarsdóttir skoraði 10.

Þróttur er í efsta sæti deildarinnar með þriggja stiga forskot á Aftureldingu. Liðin mætast í Neskaupstað á föstudagskvöld en heimsóknin verður síðan endurgoldin í Mosfellsbæ viku síðar.

Líkur eru á að þessir tveir leikir ráði hvort liðið verður deildarmeistara en að þeim loknum á Þróttur aðeins tvo leiki eftir á heimavelli gegn Þrótti Reykjavíkur sem lítið hefur gengið hjá í vetur.

Úr leiknum í gær. Mynd: Blakdeild Þróttar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.