Blak: Sjö í U-17 ára landsliðunum á Norðurlandamóti

Sjö austfirsk ungmenni voru í U-17 ára landsliðunum í blaki sem í síðustu viku tóku þátt í opna Norðurlandamótinu í blaki sem fram fór í Ikast í Danmörku.

Stelpurnar byrjuðu vel með 3-0 sigri á Grænlandi en töpuðu síðan með þeirri tölu gegn Danmörku og Noregi í riðlakeppninni. Liðið stóð aðeins í norska liðinu en var rótburstað af því danska.

Í milliriðli tapaði liðið fyrir Færeyjum 3-1 og síðan Svíþjóð 3-0 áður en það vann Grænland aftur 3-0 í leik um sjöunda sætið.

Í liðinu voru þær María Bóel Guðmundsdóttur og Freyja Karín Þorvarðardóttir úr Þrótti og Heiðbrá Björgvinsdóttir úr Leikni Fáskrúðsfirði. Ana Vidal, aðalþjálfari liðsins, kemur úr Þrótti.

Strákarnir töpuðu öllum leikjum sínum í riðlakeppninni en 3-0 en leikið var gegn Finnum, Dönum og Norðmönnum. Í leik um sæti vann það England 3-2.

Hlynur Karlsson var fyrirliði drengjaliðsins en auk hans voru í hópnum Sölvi Páll Sigurpálsson, Börkur Marinósson og Kári Kresfelder Haraldsson. Borja Vicente og Ragnar Ingi Axelsson þjálfa liðið en allir koma þeir úr Þrótti Neskaupstað.

Stúlknalandsliðið í Ikast. Mynd: Blaksamband Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar