Blak: Þróttur Íslandsmeistari eftir oddahrinu

blak_throttur_hk_bikar_0240_web.jpgÞróttur tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna þegar liðið vann HK í Neskaupstað í oddahrinu í rafmögnuðum oddaleik. Þróttur var með bakið upp við vegg í fjórðu hrinu en snéri leiknum sér glæsilega í vil.

 

HK hafði undirtökin frá byrjun í fyrstu hrinu og vann hanna örugglega 25-17 en Þróttur svaraði strax í annarri hrinu sem liðið vann 25-21. Gestirnir voru samt aldrei langt undan og þurfti Þróttur að hafa mikið fyrir hrinunni.

Í þriðju hrinu tók HK strax frumkvæðið og komst í 1-5 áður en Þróttur fór að sýna lit. Staðan var síðan jöfn 15-15 en HK seig þá aftur fram úr og vann 19-25.

Þróttur skoraði fyrstu tvö stigin í fjórðu hrinu en þá snéri HK taflinu sér í hag. Munurinn var samt alltaf lítill þótt HK væri skrefinu á undan. Líkt og í fyrri hrinum og í leik liðanna í Kópavogi í fyrrakvöld virtist heldur meiri kraftur í liðinu. Mestur varð munurinn 10-13 og síðan 18-21.

Þá rönkuðu Þróttarstelpur við sér, enda komnar með bakið upp að vegg. Þótt HK kæmist í 19-22 bitu þær hraustlega frá sér og unnu hrinuna 25-22.

Þróttur varð fyrir áfalli í stöðunni 2-2 þegar blakkona ársins, Miglena Apostolova, meiddist og þurfti að fara af velli. Miglena hefur reyndar glímt við meiðsli stóran hluta tímabilsins. HK gekk á lagið og komst í 2-6, 3-7 og 4-8.

Eftir tæknihléið beit Þróttur aftur í skjaldarrendur og minnkaði muninn í 7-8. HK svaraði með tveimur stigum, 7-10 en aftur kom góður kafli heimastúlkna sem jöfnuðu í 10-10.

Þá varð ekki aftur snúið. Yngri leikmennirnir stigu upp eftir að Miglena meiddist. Zahrina Filipva, sem átti mjög góðan dag, skoraði tólfta stig Þróttar með glæsilegu föstu smassi og þrettánda stigið einni úr lúmskri uppgjöf. Seinasta stigið skráðist síðan á Lilju Einarsdóttur en HK-ingum gekk illa að taka við laumu hennar.

Þakið ætlaði af húsinu í Neskaupstað þegar boltinn small í gólfinu enda það fullt af gulklæddum og gulmáluðum áhorfendum, Þar fór fremstur í flokki Þórður Júlíusson frá Skorrastað sem stjónraði söng. Á höfuð hans hafði verið málaður gulur broskall og vart mátt á milli sjá á stundum hvort menn horfðu framan eða aftan á Þórð. Þá var sigurinn sérlega sætur fyrir fyrirliða Þróttar, Kristínu Salínu Þórhallsdóttir, sem fagnaði Íslandsmeistaratitilinum á 21 afmælisdegi sínum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.