Blak: Þróttur kominn í fjórða sætið

blak_hk_throtturn_ymir_throtturr_0055_web.jpg
Þróttur Neskaupstað náði fjórða sætinu í 1. deild kvenna í blaki, sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni, þegar liðið lagði Ými í síðasta heimaleik leiktíðarinnar á laugardag.

Þótt Þróttur ynni með þremur hrinum gegn engri var sigurinn ekki jafn öruggur og þær tölur gefa til kynna. Fyrsta hrinan var mjög spennandi en hana vann Þróttur 25-22. Þróttur hafði meiri yfirburði í annarri hrinu sem liðið vann 25-12.

Gestirnir voru yfir framan af þriðju hrinu en heimastúlkur jöfnuðu í 15-15. Þær stungu síðan af og unnu 25-18.
 
Í liði Þróttar Nes var Lilja Einarsdóttir atkvæðamest með 12 stig en Hulda Elma Eysteinsdóttir gerði 11 stig. Í liði Ýmis var Birna Hallsdóttir stigahæst með 4 stig.
 
Með sigrinum komst Þróttur upp fyrir Ými í baráttunni um fjórða sætið sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni. Liðið er með fimmtán stig í fjórða sæti, stigi á eftir Þrótti Reykjavík en tveimur stigum á undan Ými. Afturelding og HK eru langefst í deildinni.

Þróttarliðið spilar gegn Eik í undanúrslitum bikarkeppninnar í Laugardalshöll á laugardag en úrslitin fara fram á sunnudag. Liðið á tvo deildarleiki eftir, gegn HK og Þrótti Reykjavík.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.