Blak: Mikilvægur sigur á HK

Karlalið Þróttar Neskaupstað vann mikilvægan sigur á HK í Mizuno-deild á laugardag. Kvennaliðið tapaði hins vegar sínum sjötta leik í röð.

Þróttur tapaði fyrstu hrinu 20-25 en kom til baka í annarri hrinu 25-21 og vann svo 25-17 og 25-19.

„Fyrsta hrinan var ekki mjög góð. Hávörnin HK var mjög öflug, trúlega þá bestu í deildinni og náði að stöðva kantmenn okkar.

Það tók okkur fyrstu hrinuna að venjast hávörninni og finna leiðir framhjá henni. Við gerðum breytingar sem virkuðu og eftir það spiluðum við betur,“ segir Ana Vidal, þjálfari Þróttar.

Hún var ánægð með þær framfarir sem hún hefur séð í liðinu. „Við erum með ungt lið sem vex í hverri viku. Leikmenn eins og Doddi (Þórarinn Örn Jónsson) og Galdur (Máni Davíðsson) eru farnir að taka aukna ábyrgð og það skiptir miklu máli. Við gefum yngri leikmönnum tækifæri sem þeir nýta vel. Guðjón (Berg Stefánsson) var til dæmis mjög öflugur á laugardag.

Mér fannst við spila vel á laugardag. Við sýndum stöðugleika og spiluðum eins og lið. Mér fannst gaman að horfa á liðið, sem skiptir mestu máli fyrir fólkið sem kemur til að horfa á leikinn.“

Sátt við þrjú stig eftir helgina

Ekki gekk jafn vel í seinni leik liðanna á sunnudag, sem HK vann 0-3 eða 30-32, 17-25 og 15-25. „Dómararnir dæmdu ekki eins og við reiknuðum með eftir leikinn á laugardag og við misstum einbeitinguna. Við verðum að halda okkur við okkar leik en ekki hugsa um aðra.

Það er alltaf erfitt að spila að tvo leiki á einni helgi, einkum fyrir eldri leikmenn okkar. Liðin í deildinni eru jöfn og það getur gert gæfumuninn ef gærdagurinn situr í mönnum.“

Eftir helgina er Þróttur í fjórða sæti, þremur stigum á undan Aftureldingu en liðin berjast um fjórða sætið og það síðasta í úrslitakeppninni í vor.

„Við fengum þrjú stig út úr þessari helgi, sem var í raun meira en við reiknuðum með. Núna getum við virkilega barist um sæti í úrslitakeppninni sem er það sem skiptir okkur mestu máli. Við eigum eftir að heimsækja Aftureldingu og vonandi náum við stigum þar.“

Sjötti ósigurinn í röð

Kvennaliðið er hins vegar í vandræðum eftir sjötta tapleikinn í röð, gegn HK 0-3 á laugardag eða 17-25, 26-24, 22-25 og 16-25 í hrinum. Þróttur berst við Þrótt Reykjavík og Aftureldingu um fjórða sætið og er sem stendur í fimmta sæti.

„Við erum með ungt lið sem hefur lent á vegg. Okkur skortir leiðtoga eða einhvern með reynslu inni á vellinum sem hægt er að leita til þegar leikurinn er jafn. Við slíkar kringumstæður, eða ef liðið gerir nokkur mistök í röð, brotnar það.

Þetta er vandamálið sem við þurfum að laga og vonandi tekst það. Þær eru góðar á æfingum og eiga eftir að eflast,“ segir Ana.

Sjálf hefur hún lítið getað leikið með liðinu, en hún eignaðist sitt fyrsta barn fyrir jól. „Ég er farin að geta æft og hef verið á varamannabekknum í síðustu leikjum. Ég er ekki í mínu besta formi en ég reyni að vera með þegar ég get til að styðja stelpurnar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.