Blak: Kvennalið Þróttar með aðra hönd á deildarmeistaratitlinum

Lið Þróttar er hársbreidd frá því að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í blaki kvenna eftir 3-0 sigur á keppinautum sínum í Aftureldingu á laugardag. Karlaliðið tryggði sér sæti í úrslitakeppninni í voru með að ná fjórum stigum gegn HK um helgina.

Undanfarna vetur hefur Afturelding haft tök á Þrótti en það hefur snúist við síðustu vikur og aldrei á skýrari hátt en á laugardag. Fyrstu hrinuna vann Þróttur 25-11.

„Þetta var nánast fullkomin hrina. Afturelding átti engin svör, við vörðumst þeim hvar sem er. Það er eiginlega ekki eðlilegt að vinna svona hrinu gegn Aftureldingu,“ segir Ana Vidal, annar þjálfara blakliða Þróttar.

70 stiga hrina

Önnur hrinan varð söguleg. Þróttur var yfir 20-12 og með sigurinn nánast tryggðan 24-19. Þá skoraði Afturelding sex stig í röð og komst yfir. Þróttur tókst að bjarga sér og í hönd fór mögnuð upphækkun sem endaði með 36-34 sigri Þróttar.

„Við spiluðum ágætlega framan af henni en um miðbikið misstum við einbeitinguna og skipulagið. Borja (hinn þjálfarinn) sagði að við værum hræddar en það var ekki tilfinning mín inni á vellinum.

Við fundum hins vegar að Afturelding óttaðist okkur og ég held að það hafi orðið til þess að þær náðu ekki að klára hrinuna. Okkur virðist sem sálfræðin skipti miklu máli á Íslandi, ef eitt liðið óttast annað þá er búið að vinna hluta leiksins þegar flautað er á. Við ætlum okkur að nota leikina sem framundan eru til að auka enn á þennan ótta.“

Tólf stig í röð

Afturelding var 11-17 yfir í þriðju hrinu en þá kom tólf stiga viðsnúningur eftir að Helena Kristín Gunnarsdóttir fór í uppgjöf þannig Þróttur komst í 23-17. Eftir það var formsatriði að klára hrinuna.

„Borja tók leikhlé og sagði okkur að leikurinn ylti á okkur, ef við vildum vinna yrðum við að fara að spila. Við breyttum aðeins skipulaginu, hann sagði mér til dæmis að ég væri á röngum stað í vörninni, þá lagaðist varnarleikurinn og ég held að Aftureldingarstelpur hafi orðið hræddar.

Við getum spilað mjög vel ef við höldum einbeitingunni. Við verðum að vinna í því. Við erum í raun komin lengra en við reiknuðum með á þessum tíma en það þýðir að við slökum neitt á.“

Liðin mætast aftur í Mosfellsbæ um næstu helgi. Þrótti dugir þar að knýja fram oddahrinu, þá fær tapliðið eitt stig en sigurliðið tvö í stað þriggja fyrir venjulegan sigur. Ef það mistekst á Þróttur tvo útileiki gegn Þrótti Reykjavík fyrstu helgina í mars.

Léttir að vinna fyrri leikinn

Karlaliðið spilaði tvo leiki við HK. Þann fyrri á laugardag vann Þróttur 3-1 eða 25-22, 14-25, 25-21 og 26. Seinni leikinn vann HK 2-3 eða 24-26, 25-20, 25-22, 25-27 og 13-15.

Úrslitin þýða að ljóst er að Þróttur endar í þriðja sæti deildarkeppnina og fer beint í undanúrslitin sem byrja fyrstu helgina í mars en Stjarnan og Afturelding í fjórða og fimma sæti spila um síðasta sætið í úrslitakeppninni.

„Það var markmið að láta Stjörnuna ekki ná okkur og við vissum að okkur dygði einn sigur til þess. Það var léttir að ná honum strax.

Mér hefur fundist við spila vel gegn HK. Við vorum með lykilmenn okkar Borja og Mataeo meidda þegar við spiluðum í Kópavogi en samt unnum við annan leikinn. Þeir eru í betra formi nú þótt þeir hafi ekki náð sér að fullu.

Við lögðum upp með sömu leikaðferð og eftir að hafa unnið fyrri leikinn var sá seinni eins og æfing. Það var engin pressa og við notuðum tækifærið til að vinna með ákveðna hluti sem vonandi gagnast síðar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar