Orkumálinn 2024

Blak: Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir leggur skóna á hilluna

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir er ein mesta afrekskona Íslands í blaki. Hún er fædd og uppalin í Neskaupstað og Þróttur Nes eina íslenska liðið sem hún hefur spilað með. Eftir að hafa spilað blak í 20 ár víða um Evrópu hefur hún ákveðið að leggja skóna á hilluna.

Jóna Guðlaug var 10 ára þegar hún byrjaði að æfa blak með Þrótti Nes og 14 ára þegar hún fór að æfa með meistaraflokki í úrvalsdeildinni. Jóna var efnileg blakkona og fór til Frakklands að spila blak í efstu deild aðeins 16 ára gömul. Hún var þar í 1 ár en kom svo aftur heim og vann alla titlana með Þrótti Nes.

Hún fór aftur til útlanda í atvinnumennsku tveimur árum seinna, þá 19 ára. Hún fór fyrst til Noregs að spila þar sem hún var 1 ár í Tromsö og 2 ár í Stavanger. Þaðan fór hún til Þýskalands og spilaði í liði Vilsbiburg í efstu deild. Ári seinna flutti hún til Sviss þar sem hún spilaði einnig í efstu deild í eitt ár.

Eftir tímabilið í Sviss flutti Jóna aftur heim í 1 ár og spilaði með Þrótti Nes. Þróttur vann silfur það árið sem Jóna man að var svolítið sárt. Eftir silfrið með Þrótti fór hún til Svíþjóðar og hefur verið þar síðastliðin 9 ár að spila í efstu deild. Fyrstu fjögur árin spilaði hún fyrir Örebro og svo flutti hún til Halmstad þar sem hún hefur spilað fyrir liðið Hylte Halmstad síðastliðin 5 ár.

Ásamt því að vera í atvinnumennsku í Evrópu hefur Jóna verið í A-landsliði Íslands í blaki frá 16 ára aldri. Hún gegndi hlutverki fyrirliða í landsliðinu þegar hún var um tvítugt. Jóna varð Evrópumeistari Smáþjóða með landsliðinu árið 2017. Jóna segir að það sé mikil sorg að hún muni ekki spila meira með landsliðinu.

Jóna segir að hún hætti eiginlega að spila síðasta vor en vildi ekki tilkynna það af því að hún þekki sjálfa sig og að það væri smá glufa að hún myndi vilja spila meira. „Ég var grátbeðin í haust að koma og hjálpa til og spila af því að það var smá vesen með aðra leikmenn í liðinu svo ég hoppaði inn í liðið og spilaði í haust”

„Ég áttaði mig á því að ég er orðin 34 ára og líkaminn leyfir mér ekki lengur að hoppa og spila eins og áður.” Jóna bauðst til að spila þangað til að Thelma Dögg, önnur íslensk afrekskona í blaki, kæmi að spila með liðinu. „Hélt að ég gæti hoppað inn og spilað en líkaminn sagði stopp, þá rennur upp fyrir manni að þetta er búið.”

Jóna segist vera sátt með ákvörðunina en að það sé líka mikil sorg yfir þessu. „Ég er búin að æfa eins og brjálæðingur frá 14 ára aldri og hef varla átt helgarfrí síðan ég var 14 ára”. Jóna segir skrýtið að vera í fríi en að það sé hollt að prófa eitthvað nýtt. „Ég hef alltaf verið partur af liði og ég sakna þess strax”

Jóna segir sætasta sigur ferilsins hafa verið þegar hún vann Evrópukeppni Smáþjóða með landsliðinu. Árið þar sem hún vann alla titlana með Þrótti Nes standi líka upp úr. „Það var fyrsta skiptið sem ég upplifði sigurvímuna.”

„Gullið í fyrra með Hylte Halmstad var líka sætur sigur af því að ég var búin að ákveða að það yrði síðasta tímabilið mitt. Punkturinn yfir I-ið að vera fyrirliði og lyfta bikarnum. Það er ekki alltaf gaman að æfa þegar maður er meiddur en sigrar eins og þessir gera allt þess virði”

Jóna segir blaksamfélagið á Íslandi frábært og að þar sé gott fólk. Þróttur Nes hefur alltaf stutt við bakið á mér í gegnum allt og mig langar að þakka Norðfirðingum fyrir stuðninginn og hvatninguna, segir Jóna. „Blakið hefur gefið mér ótrúlega mikið og ég er þakklát að ég hafi fengið að lifa þessu lífi og eignast vini um allan heim en allt tekur víst enda”

 

Mynd: Úr einkasafni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.