Orkumálinn 2024

Blak: Góður sigur kvennaliðsins

Kvennalið Þróttar vann um helgina góðan 3-0 sigur á Þrótti Reykjavík í úrvalsdeild kvenna í blaki. Karlaliðið varð undir gegn efsta liðinu, Hamri. Leikið var í Neskaupstað.

Í fyrstu hrinu kvennaleiksins var jafnt á tölunum upp í 11-11, að Þróttur Neskaupstað skoraði fjögur stig í röð og komst yfir 15-11. Heimaliðið lét síðan kné fylgja kviði og kláraði hrinuna 25-16.

Í annarri hrinu seig liðið fram úr um miðja hrinu og vann 25-22. Í þriðju og síðustu hrinunni skoraði Norðfjarðarliðið sex fyrstu stigin. Eftir það komst jafnvægi á leikinn en sex stig urðu munurinn í lokin, 25-19. Stigahæstar heimastúlkna voru Paula Miguel de Blaz með 17 stig og María Jimenez Gallego með 14.

Þróttur er nú í fimmta sæti með þrjá sigra og hefur gömlu stórveldin, HK og Þrótt Reykjavík, fyrir neðan sig. Fram undan er mánaðarjólafrí.

Karlaliðið réði ekki við Hamar, sem hefur verið besta lið landsins síðustu misseri. Hveragerðisliðið vann fyrstu hrinu örugglega, 17-25.

Önnur hrinan var sú jafnasta. Þróttur hékk í Hamri og náði að minnka muninn niður í 17-18. Þá sat allt fast og Hamar vann hrinuna 18-25. Það innsiglaði svo sigurinn 18-25 í þriðju hrinu. Atkvæðamestir í Þrótti voru þeir Miguel Melero og Jose Martin.

Líkt og kvennaliðið þá er karlaliðið í fimmta sæti. Það fær hins vegar einni viku lengra í frí.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.