Blak: Bæði lið unnu HK

Bæði karla og kvennalið Þróttar unnu um helgina HK í úrvalsdeildunum í blaki. Leikið var í Neskaupstað. Innbyrðis voru miklar sveiflur í leikjunum.

Karlaliðið lenti í oddahrinu. Þrátt fyrir að það gefi vísbendingar um frekar jafnan og spennandi leik spiluðust hrinurnar ekki þannig. Liðin skiptust á að vinna, HK fyrst 16-25, Þróttur svo 25-20, næst HK aftur 16-25, síðan Þróttur 25-19 og loks 15-9 í oddahrinunni.

Sigurlið hverrar hrinu hafði undirtökin nánast frá byrjun hennar. Hrinurnar voru sjaldan jafnar, hvað þá liðin væru að skiptast á forustunni, líkt og oft gerist í jöfnum leikjum.

Miguel Angel Ramos Melero og Ramses Ballesteros voru stigahæstir hjá Þrótti með 15 stig hvor. Með sigrinum fór liðið upp um tvö sæti í deildinni, það fjórða. Það spilar næst gegn Hamri heima.

Hrinurnar í kvennaleiknum voru ögn jafnari. HK komst í 9-11 í þeirri fyrstu en Þróttur skoraði þá fjögur stig í röð og komst tveimur stigum yfir. Liðið bætti síðan í forskotið og vann 25-23 þótt HK gerði atlögu í lokin. Kópavogsliðið svaraði með yfirburðum í annarri hrinu og vann hana 13-25.

Þróttur var kominn í þægilega stöðu, 21-12 í annarri hrinu þegar gestirnir skoruðu átta stig í röð og minnkuðu muninn í eitt stig. Þróttur svaraði þá á ný og tókst að hanga á sigrinum, 25-23. Þróttur vann loks fjórðu hrinuna 25-17.

Paula Migueld de Blaz var stigahæst með 20 stig. Þróttur fór upp um tvö sæti og er í fimmta sæti. Liðið fær Þrótt Reykjavík í heimsókn um næstu helgi.

Úr karlaleiknum um helgina. Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.