Bjórdós kastað í stuðningsfólk Vals

Stuðningsmanni Hattar var hent út af leik liðsins gegn Val í undanúrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik í gærkvöldi fyrir óspektir. Leitað verður á áhorfendum á úrslitaleikjum helgarinnar eftir að bjórdós, sem kastað var frá stuðningsfólki Hattar, hæfði barn í hópi Valsara.

Mikil stemming var meðal Hattarfólks í gær enda leikurinn kaflaskil í sögu félagsins, það hafði ekki áður komist í undanúrslitin. Fjöldi fylgdi liðinu að austan auk þess sem brottfluttir fjölmenntu. Heilt yfir skapaði hópurinn mikla stemmingu og var hvíti liturinn mun meira áberandi en sá rauði í stúkunni.

Hattarfólkið stríddi Völsurum með að láta þristum, það er að segja súkkulaðinu, rigna yfir stuðningsfólk Vals. Almennt var namminu kastað lauslega upp í loftið, en Austurfrétt hefur eftir leikinn rætt við fólk úr báðum stuðningshópum sem hefur lýst því að nokkrir stuðningsmenn Hattar hafi gengið heldur lengra með að grýta þristunum auk þess sem bjórdós hafi verið hent að Valshópnum.

Skelkað en lítið meitt

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar staðfestir Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri Körfuknattleikssambands Íslands að fullri bjórdós hafi verið kastað úr efri stúku Laugardalshallar og hitt fyrir barn. Sem betur fer hafi barnið sloppið án alvarlegra meiðsla en sé skelkað.

Einum stuðningsmanni Hattar hafi verið vísað frá vegna hegðunar í gær. Snorri segir að slíkt verði gert þegar leikið verði til úrslita í bikarnum um helgina. Þá verði verklag hert og leitað á áhorfendum fyrir leik. Komi sambærilegar aðstæður upp aftur gæti þurft að rýma áhorfendastúkuna.

„Það er rétt að nokkrir stuðningsmenn gengu of langt í sínum stuðningi í gær og framkoma þeirra einstaklinga var þeim verulega til vansa. Það er leitt að áhorfendur geti ekki sett sína orku í stuðning við sitt lið, í stað þess að ganga þannig fram að það getur valdið öðrum skaða,“ segir Snorri.

Óforsvaranleg hegðun

Áætlað er að um 450 stuðningsmenn Hattar hafi mætt á leikinn í gærkvöldi. Fólk úr þeim hópi, sem Austurfrétt hefur rætt við, er reitt í garð þeirra stuðningsmanna sem hegðuðu sér verst og segir þá hafa svert orðspor þess yfirgnæfandi meirihluta sem mætt hafi til að skapa góða stemmingu.

Ásthildur Jónasdóttir, formaður körfuknattleiksdeildar Hattar, segir framkomu örfárra einstaklinga hafa verið ófarsvaranlega og sannarlega ekki það sem félagið hafi viljað. Stjórnarfólki hafi verið gert viðvart af gæslu meðan leik stóð um brottvísun einstaklingsins og Höttur hefði stutt það heilshugar ef ákveðið hefði verið að vísa fleirum ólátabelgjum úr húsi. Félagið hafi rætt við formann körfuknattleiksdeildar Vals og beðist afsökunar á atvikinu. Framkvæmd þessa leiks og gæsla sé hins vegar á ábyrgð KKÍ. Það breyti því þó ekki að félagið harmi atburðinn og fordæmi hegðunina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.