Bæjarstjórinn dregur fram takkaskóna

Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Hornafirði, hefur dregið fram takkaskóna á nýjan leik og lék með liðinu í bikarkeppninni í knattspyrnu í vikunni. Í hádeginu var dregið í 32ja liða úrslitum keppninnar.

 

hjalti_thor_vignisson.jpgHjalti Þór kom inn á sem varamaður þegar Sindri vann Leikni 5-2 í forkeppni bikarsins á Höfn á þriðjudagskvöld. Staðan þá var 2-2 en þrjú mörk heimamanna í seinni hálfleik tryggðu þeim sigurinn. Tvö þeirra komu áður en Hjalti Þór var rekinn út af með sitt annað gula spjald á 78. mínútu.

Hjalti Þór, sem er uppalinn Hornfirðingur og á að baki fjölda leikja með Sindra en lék með Val í úrvalsdeild á námsárum sínum, stefnir á að spila með liðinu í þriðju deildinni í sumar. Hann lék seinast með Sindra sumarið 2007.

„Ég reyndar meiddist fyrir einum og hálfum mánuði síðan þegar ég reif kálfavöðva en þangað til hafði ég æft nokkuð vel og var kominn í fínt stand. Ég er því aðeins á eftir liðsfélögum mínum og hef spilað fáa leiki. En nú sýnist mér stefna í að meiðslin séu frá og ekkert til fyrirstöðu að vera á fullu í boltanum.“

Í hádeginu var dregið í 32ja liða úrslitum keppninnar. Sindri heimsækir Víking í Reykjavík. Fjarðabyggð, sem burstaði Spyrni 10-0 á þriðjudagskvöldið, fær Njarðvík í heimsókn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.