Barðneshlaup þreytt í 23ja sinn

Hið árlega Barðneshlaup verður þreytt í 23ja sinn á laugardag. Tvær vegalengdir eru í boðinu eru í hlaupinu en keppendur eru ferjaðir með bátum í rásmarkið.

Fullt Barðsneshlaup er 27 km og hefst á Barðnesi, nokkurn vegin beint á móti Neskaupstað en hinu megin í firðinum. Eins er í boði 13 km hlaup sem hefst á Sveinsstöðum í Hellisfirði. Endamarkið í báðum hlaupum er í miðbæ Neskaupstaðar.

Ræst er á Barðsnesi klukkan tíu að morgni en klukkutíma síðar í Hellisfirði. Siglt er frá Neskaupstað klukkutíma fyrr og þurfa keppendur þá að vera tilbúnir á bryggjunni. Margir hlauparar segja bátsferðina eitt það sérstæðasta og skemmtilegasta við hlaupið.

Hlaupið hefur alltaf verið haldið í tengslum við fjölskylduhátíðina Neistaflug um verslunarmannahelgina en hugmynd skipuleggjenda hlaupsins hefur alltaf verið sú að hlauparar geti mætt og tekið þátt í skemmtilegu fjallaskokki um leið og þeir mæta með fjölskyldu sína til Norðfjarðar til að taka þátt í dagskrá Neistaflugsins.

Upphafsmaður hlaupsins er Ingólfur Sveinsson, læknir frá Barðsnesi sem er áttræður í ár og hefur verið með í öllum hlaupunum.

Hlaupið er önnur þrautin af þremur í hinum austfirska járnkarli. Þá nafnbót hljóta þeir sem klára Urriðavatnssund, Barðsneshlaup og Tour de Orminn á einu og sama sumrinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar