Orkumálinn 2024

„Bað strákana um að gefa mér þá kveðjugjöf að leggja sig fram“ - Myndir

Leiknir Fáskrúðsfirði heldur sæti sínu í annarri deild karla í knattspyrnu en liðið vann Víði Garði 3-0 á heimavelli í lokaumferðinni í dag. Viðar Jónsson þjálfari hættir með liðið eftir fimm ára starf.

„Það er ótrúlegu fargi af mér létt. Ég ætlaði okkur að vera löngu búnir að tryggja þetta sæti. Svona hefur þetta verið, liðið hefur ýmist verið í toppbaráttu eða fallhættu undir minni stjórn,“ sagði Viðar í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.

Leiknir, Höttur og Tindastóll voru öll í fallhættu fyrir umferðina í dag en Huginn Seyðisfirði var fallinn. Leiknir stóð verst að vígi liðanna þriggja með fæst stig en á blaðinu þægilegasta mótherjann því Víðir gat hvorki farið upp né niður um deild.

Reyndar er óvíst að nokkuð hefði skipt hver mótherjinn var því Leiknir spilaði trúlega sinn besta leik í sumar. Liðið var með frumkvæðið strax á fyrstu mínútu og fremstu menn fundu rúmt svæði bakvið vörn Víðis.

Nokkur góð væri voru farin forgörðum áður en Povilas Krasnovskis kom Leikni yfir á 40. mínútu með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá hægri. Hann bætti síðan við öðru mark fimm mínútum síðar eftir víti sem dæmt var á markvörð Víðis sem ætlaði að verða á undan Dag Inga Valssyni í háa langa sendingu en varð seinni og hljóp Dag Inga niður. Enginn hreyfði mótmælum við dómnum.

Amar Daði Jónsson kom Leikni í 3-0 á 62. mínútu. Jeffrey Ofori, varnarmaður Leiknis, fékk rautt spjald kortéri fyrir leikslok eftir átök við Víðismenn. Einn þeirra fékk gult um leið. Það hafði ekki áhrif á úrslit leiksins né stöðu Leiknis. Það gerði hins vegar ósigur Hattar á móti Aftureldingu. Egilsstaðaliðið fer því niður en Leiknir heldur sér í deildinni.

Aðalatriðið að vinna sinn leik

Þrátt fyrir að vera að vinna Víði var staða Leiknis ekki trygg allan leikinn. Um tíma voru bæði Tindastóll og Höttur yfir í sínum leikjum sem hefði fellt Leikni.

„Ég talaði um það við hópinn að okkar verk væri bara að vinna okkar leik, svo myndum við skoða hvernig aðrir leikir færu. Ég hefði ekki trú á að Höttur eða Tindastóll ynnu þrjá leiki í röð, auk þess sem Afturelding var að berjast fyrir að fara upp um deild og hefur skorað 2,5 mörk að meðaltali í leik í sumar þannig ég bjóst við að þeir legðu allt í leikinn og það kæmi mark. Mér finnst hins vegar hundleiðinlegt að sjá á eftir mínu uppeldisfélagi niður um deild.

Ég peppaði strákana líka með því að láta þá vita fyrir leikinn að ég væri hættur eftir fimm ára starf og bað þá um að gefa mér það í kveðjugjöf. Þeir gerðu það sannarlega, við hefðum getað skorað átta eða tíu mörk í dag.“

Þótt leikurinn í dag hafi gengið vel viðurkenna Fáskrúðsfirðingar að þeir hafi alls ekki ætlað sér að vera í þessari stöðu en liðið féll úr fyrstu deildinni í fyrra eftir tveggja ára veru.

„Við vorum með væntingar um að vera í efri hluta deildarinnar, ekki síst því við héldum stórum hluta kjarnans í hópnum. Við töpuðum hins vegar einum ellefu leikjum í deildinni í fyrra í röð og það gerðist sem ég óttaðist, að ef við byrjuðum illa þá lentum við í vandræðum.“

Hápunkturinn að halda sætinu í fyrstu deildinni

Viðar tók við Leikni í þriðju deild og fyrstu tvö sumrin fór liðið upp um jafn margar deildir. Í fyrstu deildinni hélt það sér svo eftir ótrúlegan lokaleik sumarið 2016. Hann segir þá stund hafa verið hápunktinn á þjálfaraferlinum.

„Ég gleymi ekki þeim degi. Í mínum huga var það stærra en að hafa unnið aðra eða þrjiðu deildina. Það var afrek að fá strákana til að trúa því að við gætum haldið okkur uppi.

Ég er stoltur af því sem ég hef gert og af leikmönnunum. Þetta hefur verið skemmtileg vegferð að taka þátt í að koma svona litlu félagi upp í næst efstu deild, sem er jafnvel of stór fyrir félagið.

Mér finnst hins vegar vera kominn tími á breytingar, bæði hjá mér og liðinu. Ég hefði kannski átt að hætta eftir tímabilið í fyrra, mér fannst ég ekki getað ná mikið meiru út úr liðinu. Þegar sem verst gekk það sumar komu upp þær hugsanir að rétt væri að hætta en stjórnin sannfærði mig um að klára verkefnið og ég gerði það því ég fann traustið.

Mér fannst líka spennandi að vera í annarri deildinni, ég taldi okkur geta sýnt meira. Í dag er ég sáttur við að kveðja liðið á betri stað en ég tók við því.“

Viðar kveðst þakklátur stjórn, leikmönnum og Fáskrúðsfirðingum sem stutt hafa við starfið síðustu ár. „Við höfum tekið ótrúlega mörg skref upp á við saman.“

Hann hefur hug á að halda áfram þjálfun. „Ég hafði hugsað um að taka mér frí en ég finn það strax núna að það kitlar mig að taka við öðru verkefni. Ég hef hug á að takast á við eitthvað spennandi ef það býðst.“

Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0002 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0003 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0007 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0014 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0022 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0031 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0033 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0036 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0043 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0051 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0056 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0067 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0075 Web
Fotbolti Leiknir Vidir 20180922 0082 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.