Austfirðingur í atvinnumennsku: Sóttist alltaf eftir að vera í marki

Rafal Daníelsson varð í gær nýjasti atvinnumaður Íslands í knattspyrnu þegar hann samdi við enska úrvalsdeildarliði Bournemouth. Rafal hefur síðustu fimm ár verið hjá Fram en byrjaði að æfa fótbolta hjá Fjarðabyggð og Hetti.

„Hann hafði rosalegan metnað, mætti á hverja einustu æfingu hjá sínum flokki og fékk að vera með þeim eldri líka.

Hann sóttist alltaf eftir að vera í marki og var mjög frambærilegur því hann hafði mikla griphæfileika,“ segir Helgi Ásgeirsson, yfirþjálfari yngri flokka Fjarðabyggðar.

Rafal er fæddur í Neskaupstað, sonur Daníels Arasonar tónlistarkennara og Aleksöndru Wójtowicz, lögreglufulltrúa. Hann byrjaði að æfa með Fjarðabyggð eftir að fjölskyldan fluttist á Eskifjörð og var í þrjú ár undir leiðsögn Helga.

„Ég reiknaði ekki endilega með honum í atvinnumennsku en hann stefndi á meistaraflokk. Hann gerði það sem þurfti til að ná árangri og hafði gríðarlegan stuðning frá foreldrunum.“

Fjölskyldan fluttist næst til Egilsstaða og Rafal æfði með Hetti. „Við spiluðum einu sinni gegn honum í fimmta flokki hann varði allt. Ég bað hann um að hætta þessu!“

Aftur flutti fjölskyldan þegar Rafal var 12 ára, í þetta skiptið til Reykjavíkur þar sem Rafal fór til Fram. „Við fylgdumst áfram með honum þar. Hann fór á allar markmannsæfingar sem hann fann þar. Hann er líka mikill Liverpool-maður og fór alltaf í Liverpool-skólann þegar hann var hérlendis.“

Rafal hefur verið til reynslu hjá nokkrum erlendum liðum, þar á meðal Liverpool, þrátt fyrir að hafa ekki leikið keppnisleik fyrir meistaraflokk Fram. Hann fór til Borunemouth til reynslu í síðasta mánuði og niðurstaðan varð sú að hann yrði lánaður til enska liðsins út tímabilið, með möguleika á að það kaupi hann í sumar. Í frétt frá félaginu segir að hann muni aðallega æfa með U-21 liði þess.

Helgi segir ánægjulegt að sjá austfirska knattspyrnumenn ná svona langt. „Við notum stráka eins og Rafal og atvinnumennina sem við höfum átt sem fyrirmyndir fyrir krakkana, við bendum þeim hversu langt er hægt að ná með að leggja hart að sér. Við eigum flotta krakka sem geta náð langt en svona árangur næst ekki nema með mikilli vinnu og eljusemi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar