Ásmundur Hálfdán og Kristín Embla útnefnd glímufólk ársins

Ásmundur Hálfdán Ásmundsson og Kristín Embla Guðjónsdóttir, sem bæði keppa undir merkjum UÍA, voru valin glímufólk ársins 2018 af stjórn Glímusambandsins Íslands á dögunum.


Ásmundur Hálfdán er 24 ára gamall og hefur stundað glímu í sextán ár. Hann sigraði öll glímumót sem hann tók þátt í á árinu en hans helsta afrek var þegar hann sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Grettisbeltið í þriðja sinn. Ásmundur Ásmundur hefur verið einn fremsti glímumaður Íslands undanfarin ár.

Gott þol og útsjónarsemi mikilvæg
Kristín Embla er 18 ára gömul og átti góðu gengi að fagna á glímuvellinum árið 2018. Hún stóð sig vel á öllum glímumótum sem hún tók þátt í á árinu en helsta afrek hennar var þegar hún sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Freyjumenið í fyrsta sinn. Kristín keppti einnig á alþjóðlegum mótum í keltneskum fangbrögðum þar sem hún stóð sig vel og var í verðlaunasæti í Gouren og Backhold á Evrópumóti unglinga í apríl.

„Ég er mjög ánægð með þetta og framundan er bara að halda áfram að keppa og reyna að vinna sem flest,“ segir Kristín.

Aðspurð að því hvað þurfi til að ná langt í íþróttinni segir hún; „Maður þarf að hafa gott þol því glíma reynir á allan líkamann. Svo er útsjónarsemi mikilvæg, sem og að lesa andstæðinginn, því fólk er með mjög mismunandi glímustíl og sömu brögðin virka alls ekki á alla.“

Ekki frekar íþrótt fyrir karla en konur
Það var ekki fyrr en á fæðingarári Kristínar Emblu, árið 2000, að konum var heimilt að keppa í glímu. „Það var tveimur árum fyrir það sem konur fóru aðeins að sjást í glímu. Mér finnst alveg fáránlegt og óraunverulegt að hugsa til þess að svo stutt sé síðan að konur fóru að keppa í glímu, en þetta er svo sannarlega ekkert frekar karlaíþrótt en kvenna. Í fyrra voru til dæmis miklu fleiri konur en karlar að keppa í fullorðinsflokki á landinu.“

Mikilvægt að keppa erlendis
Síðustu ár hefur það farið vaxandi að íslenskt glímufólk keppi í fangbrögðum á erlendum vettvangi en það segir Kristín Embla afar mikilvægt fyrir íþróttina.

„Það gefur manni auka kraft til þess að æfa, því þegar maður er alltaf að keppa við þá sömu í glímunni þá missir maður stundum dampinn og því er mikilvægt að hafa þá gulrót að keppa erlendis. Þó svo að þau fangbrögð séu ekki alveg sambærileg glímunni getur maður nýtt sér tæknina úr henni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar