Orkumálinn 2024

„Allt gekk upp“

Steinunn Lilja Jóhannesdóttir, fyrirliði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis, segir allt hafa gengið upp þegar liðið tryggði sér sæti í fyrstu deild kvenna að ári með 3-0 sigri á Fram í seinni leik liðanna í undanúrslitum annarrar deildar í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag.

„Það er erfitt að lýsa því hve magnað það er að vera komin upp um deild, en tilfinningin er mjög góð. Við erum búin að vinna að þessu markmiði frá 2019.

Leikurinn spilaðist vel. Bæði lið fengu færi sem hélt spennunni í honum, Framstelpurnar voru góðar en það gekk allt upp hjá okkur í dag,“ sagði Steinunn Lilja eftir leikinn.

Hún meiddist reyndar á æfingu tveimur dögum fyrir leik en hin bandaríska Anne Bailey kom inn í hennar stað og hélt hreinu.

Liðin mættust viku fyrr á heimavelli Fram og gerðu 1-1 jafntefli. Það þýddi að leikurinn eystra á laugardag var hreinn úrslitaleikur. Mark Bjargar Gunnlaugsdóttir á 13. mínútu róaði taugarnar og Freyja Karín Þorvarðardóttir gerði annað eftir tæpt kortér í seinni hálfleik. Katrín Edda Jónsdóttir skoraði þriðja markið á 90. mínútu, fjórum mínútum eftir að hún kom inn á fyrir Björgu.

Freyja Karín er 17 ára, Katrín Edda 16 og Björg 15 þannig framtíðin virðist lofa góðu fyrir austfirska liðið. „Hversu frábært er það að þær sem skora mörkin séu svona ungar? Þetta lítur virkilega vel út fyrir framtíðina!“ segir Steinunn Lilja.

Liðið á einn leik eftir en úrslitaleikur gegn Fjölni á fimmtudag er eftir. Ekki hefur verið staðfest hvar leikurinn verður. Steinunn Lilja segir lið Fjarðabyggð/Hött/Leikni ákveðið í að klára þann leik. „Við förum í alla leiki til að vinna og okkur langar til að lyfta bikarnum. Við eigum hann skilinn eftir sumarið!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.