Aftur háspenna: Þróttur tryggði sér deildarmeistaratitilinn

blak_hk_throtturn_ymir_throtturr_0165_web.jpgÞróttur Neskaupstað tryggði sér í dag deildarmeistaratitilinn í 1. deild kvenna í blaki þegar liðið vann HK 2-3 í Digranesi í dag. Í oddahrinunni vann Þróttur upp fimm stiga forskot þegar liðið snéri leiknum sér í hag.

 

Leikurinn í dag var hreinn úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn en liðin hafa fylgst að í allan vetur. Aðeins vika er síðan liðin mættust í úrslitaleik bikarkeppninnar þar sem úrslitin réðust í oddahrinu. Slík var reyndin í dag þótt brjálæðið væri heldur minna.

HK vann fyrstu hrinuna 25-19. Heimaliðið var alltaf 1-2 stigum á undan en jók ekki forskotið að ráði fyrr en í lokin.

Þróttur svaraði með að vinna aðra hrinu 18-25. Jafnt var í fyrstu 6-6 en þá skoraði Norðfjarðarliðið fjögur stig í röð. Sú forusta hélst út hrinuna. Miklu munaði um bætta vörn Þróttar.

Mestar sveiflur voru í þriðju hrinu. Þróttur komst í 1-6 en HK minnkaði muninn í 5-6. Þróttur var yfir 6-8 en HK skoraði sex næstu stig og komst í 12-8. Móttökurnar í vörn Þróttar voru lélegar á þessum kafla og það leiddi til frekari vandamála. Þær löguðust og Þróttur komst yfir 13-14 og síðan 17-16.

Aftur svaraði HK með þremur stigum en þá var komið nóg. Þróttur skoraði fjögur stig í röð og breytti stöðunni í 17-20. HK minnkaði muninn í 18-20 en seinustu fimm stigin í hrinunni voru Þróttar.

HK byrjaði betur og komst í 10-6 í fjórðu hrinu. Þróttur spilaði ágæta hávörn en mikið var af mistökum í sókninni. HK var enn yfir 15-10 en Þróttur minnkaði muninn í 15-13 og 16-15. Fleiri urðu stigin ekki, HK skoraði níu stig í röð og vann hrinuna 25-16.

Þróttur virtist enn fastur í fjórðu hrinu þegar sú fimmta byrjaði því HK komst í 8-3. Liðið spilaði mjög góða vörn í fjórðu hrinu og framan af þeirri fimmtu. Í bikarúrslitaleiknum fyrir viku leitaði Þróttur alltaf til Miglenu Apostolovou á ögurstundum og hún skoraði stigin. Í dag gekk HK betur að eiga við hana. Á móti opnuðust færi fyrir Helenu Kristínu Gunnarsdóttur á hinum vængnum sem spilaði virkilega vel.

Þróttur jafnaði í 9-9 og kost yfir 9-11. HK minnkaði muninn í 13-14 og áhorfendur áttu von á að í hönd færi saman brjálæðið og fyrir viku. Svo var ekki. HK hafði gert sig sekt um nokkur tæknimistök á lokakaflanum og slík var reyndin þegar Þróttur fékk sigurstigið úr leikbroti HK og leikmennirnir fögnuðu öðrum titlinum á innan við viku.

Sigurinn í deildinni tryggir Þrótti einnig heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Í undanúrslitum mætir Þróttur KA. Leikið verður 5. og 7. apríl og oddaleikur laugardaginn 9. apríl, ef þarf. HK mætir Ými í hinni undanúrslitaviðureigninni.

Þrír leikir voru í Digranesi í dag. Dagurinn byrjaði á leik Þróttar R. og Ýmis klukkan hálf eitt og átti leikur Þróttar N. og HK að byrja 14:15. Fyrri leikurinn fór í oddahrinu og hófst seinni leikurinn því ekki fyrr en um klukkan þrjú. Það leiddi til þess að margir stuðningsmenn Norðfjarðarliðsins þurftu að fara í fjórðu hrinu til að ná flugi heim. Að auki misstu einhverjir leikmanna af fluginu.

Blaksambandið virðist í tímaáætlunum sínum ekki gera ráð fyrir löngum leikjum því dagskráin fór úr skorðum þegar bikarúrslitaleikirnir voru leiknir um seinustu helgi þegar úrslitaleikur kvenna fór í oddahrinu.

Leikmenn karlaliða KA og HK voru því orðnir óþreyjufullir þegar leik Þróttar N. og HK lauk í dag en þeir áttu að spila þriðja leikinn í Digranesi. Þeir fóru strax út á völlinn til að hita upp og héldu áfram að hita upp á meðan verðlaunin og deildarmeistaratitilinn voru afhent. Þeir hefðu gjarnan mátt taka sér hvíld rétt á meðan því stund sigurvegaranna drukknaði í boltaskellum.

Lokastaðan

Lið              Leikir    Stig    Hrinur    Stigaskor    
1. Þróttur N. 10       20      30-6       847-616
2. HK           10       18      28-8       846-655
3. Ýmir         10       15     18-18      773-786
4. KA           10        15     15-19      716-774
------
5. Þróttur R. 10       12      13-25      764-876
6. Stjarnan   10       10      2-30       564-803

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.