„Ætla upp að Fardagafossi með nýjan ferðafélaga á hverjum degi í vikunni“

Nú stendur yfir Hreyfivika UMFÍ með fjölbreyttri dagskrá útum allt Austurland. Hildur Bergsdóttir er boðberi hreyfingar á vegum UMFÍ og tekur það hlutverk alvarlega.

Markmið Hreyfivikunnar er að fjölga þeim sem hreyfa sig og hjálpa fólki að finna sína uppáhalds hreyfingu. UMFÍ býður fólki að gerast boðbera hreyfingar í gegnum heimasíðu sína en hlutverk boðbera er að virkja sitt nærumhverfi, vekja athygli á því sem er í boði tengt lýðheilsu og íþróttum og standa fyrir opnum viðburðum.

Hildur Bergsdóttir er boðberi hreyfingar og ein af fjölmörgum á Austurlandi sem standa að viðburðum tengdum Hreyfivikunni. „Ég er í ungmannafélaginu Þristinum sem er ansi duglegur þessa vikuna. Við í Þristinum ákváðum að taka þetta alla leið og bjóða uppá fjölbreytta viðburði í vikunni sem tengjast okkar sérstöðu sem íþróttafélag en við erum mikið í útivist og hjólreiðum. Í gær vorum við með hjólaferð fyrir fjölskylduna í samstarfi við Vask þar sem ótrúlega margir mættu. Það var ofsalega gaman og kom okkur skemmtilega á óvart hvað mættu margir því veðrið var ekkert frábært. Svo var morgunskokk í morgun, á eftir verður prjónaganga, opin götuhjólaæfing í kvöld, rathlaup á fimmtudaginn fyrir alla fjölskylduna og frispígolf æfing á laugardaginn.“

Þá hvetur Þristurinn líka til hreyfingar utan skipulagðra viðburða í vikunni með Fardagafoss áskorun sinni. „Með áskoruninni hvetjum við fólk til að fara upp að Fardagafossi, taka af sé mynd og myllumerkja hana #fardagafoss2019. Ég ákvað persónulega að taka þessa áskorun lengra og ætla að fara að fossinum á hverjum degi alla vikuna og alltaf með nýjan ferðafélaga með mér. Ég var að koma úr hádegisgöngu núna! Ég toppaði hins vegar rétt fyrir miðnætti í gær, þannig að ég er allavega búin að afgreiða fyrstu dagana,“ segir Hildur.

Fjölbreytt dagskrá er um allt Austurland með í tilefni Hreyfivikunnar en nánari dagskrá á vefsíðum sveitarfélagana og UMFÍ. Viðburðir hreyfiviku eru jafnan opnir öllum og þátttakendum að kostnaðarlausu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.