Þróttur í úrslitakeppnina í blaki

throttur eik_blak_bikar_17032012_0011_web.jpg

Þróttur Neskaupstað tryggði sér um síðustu helgi sæti í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í blaki með mögnuðum sigri á deildarmeisturum HK í Kópavogi. Þróttarfólk var einnig sigursælt á uppskeruhátíð Blaksambandsins um helgina.

 

 

Þróttur vann HK 2-3 í Fagralundi á föstudagskvöld. Þrátt fyrir sigur Þróttar tryggði HK sér deildarmeistaratitilinn þetta kvöld. Hvort lið þurfti að vinna tvær hrinur í leiknum til að ná settu markmiði.

Þróttur vann fyrstu hrinuna 24-26 en HK næstu tvær 25-13 og 25-13. Þróttur svaraði aftur fyrir sig með að vinna síðustu tvær hrinurnar, 22-25 og 10-15 í oddahrinu. Helena Kristín Gunnarsdóttir var stigahæst í liði Þróttar með 22 stig en Hulda Elma Eysteinsdóttir gerði 13.

Þrótti mistókst hins vegar að stela þriðja sætinu af nafna sínum úr Reykjavík en Reykjavíkurliðið vann æsilega viðureign liðanna á laugardag 3-2.

Norðfjarðarliðið vann fyrstu hrinuna en 12-25 en næstu tvær voru æsispennandi eins og tölurnar bera með sér, Þróttur Reykjavík vann þær báðar 27-25. Norðfjarðarliðið svaraði aftur fyrir sig 17-25 í fjórðu hrinu en tapaði oddahrinunni 15-12. Helena Kristín var aftur stigahæst með 24 stig en Hulda Elma skoraði 14.

Þrenn verðlaun féllu Þróttarstúlkum í skaut á uppskeruhátíð Blaksambandsins um helgina. Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir var valinn besti frelsinginn, Lilja Einarsdóttir efnilegasti leikmaðurinn og Matthías Haraldsson besti þjálfarinn.

Úrslitakeppnin hefst strax eftir páska. Þróttur tekur á móti HK í fyrsta leik í Neskaupstað að kvöldi miðvikudagsins 11. apríl. HK á heimaleikjaréttinn en ekki er hægt að leika í Fagralundi þá vegna annarra viðburða. Annar leikurinn verður föstudagskvöldið 13. apríl í Kópavogi og oddaleikurinn verður þar líka 17. apríl ef þarf. Liðin háðu æsilega baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra sem réðist í oddaleik í Neskaupstað.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.