Gorazd Mihailov: Egilsstaðir eru heima

gorazd_0002_web.jpg

Knattspyrnuþjálfarinn Gorazd Mihailov kvaddi Hött síðasta haust í haust Hött eftir sex ára veru hjá félaginu. Gorazd segist þakklátur fyrir sex ára starf á Egilsstöðum og er bjartsýnn á framtíð knattspyrnunnar á Fljótsdalshéraði en Höttur leikur á morgun sinn fyrsta leik í fyrstu deild karla.

Gorazd kom fyrst til Egilsstaða sumarið 2005 ásamt landa sínum, Gjoko Ilijovski. Makedóníubúarnir þekktu Dragi Pavlov, sem spilaði og þjálfaði hjá Hetti nokkrum árum fyrr og hann hafði samband við þá fyrir hönd Hattarmanna. 

Gorazd er lærður íþróttakennari og byrjaði að vinna við að þjálfa þriðja flokk karla. „Fólkið hér vildi gera meira fyrir fótboltann. Menn voru almennt ánægðir með mig eftir fyrsta árið og mér var boðið að koma aftur.“

Næstu tíu ár líta vel út hjá Hetti

Hann þáði boðið og var ásamt Gjoko yfirþjálfari yngri flokka Hattar sumarið 2006, auk þess að spila með liðinu 2006. Gjoko hætti eftir það ár og flutti heim til Makedóníu en Gorazd hélt áfram. Eftir 30 leiki og 10 mörk spilaði hann ekkert með liðinu árið sem það fór upp í aðra deild, 2007. Hann var meiddur og hafði nóg að gera við að þjálfa nýja leikmenn.

„Ég man ég lofaði fólkinu því að árið 2011 yrðum við komin með góða stráka upp í meistaraflokkinn. Næstu tíu ár líta vel út hjá Hetti. Það kom mér ekki á óvart að Höttur skyldi komast upp í fyrstu deild.“

Meistaraflokkur karla leikur á morgun sinn fyrsta leik í næst efstu deild þegar liðið heimsækir Þrótt. Gorazd telur framtíðina einnig bjarta í kvennaliðinu. „Stelpurnar skortir reynslu, þær hafa jafnvel verið að spila gegn liðum með leikmenn með mikla reynslu úr úrvalsdeild. Ég er samt mjög bjartsýnn fyrir hönd kvennafótboltans á Egilsstöðum.“ 

Ferli að ala upp leikmenn

Gorazd segir það kosta þrautseigju og þolinmæði að ala upp góða knattspyrnumenn. „Það er ferli að ala upp leikmenn fyrir meistaraflokk. Um leið og ég byrjaði að þjálfa sjá ég strax marga góða stráka og stelpur.“

Gorazd hvetur til þess að krakkar prófi margar greinar í fyrstu og velji sér síðan þá sem þeim líki best við og einbeiti sér að henni.

„Ég var mjög efnilegur í tennis, meðal átta bestu á aldrinum 13-14 ára og vann líka til verðlauna á svigskíðum. Á ákveðnum tímapunkti valdi ég fótboltann en skíðin og tennisinn urðu áhugamál. 

Aftur og aftur

Margir krakkar eru í mörgum íþróttum. Ef þau æfa ekki fótbolta á veturna, í 6-7 mánuði, bæta þau sig lítið. Greinarnar geta hjálpað hver annarri en líka truflað. Þú færð aukna fimi út úr fimleikum og þegar Þjóðverjar urðu í öðru sæti á HM í fótbolta 2006 lét þjálfarinn, Jürgen Klinsmann, þá spila körfubolta á æfingum því það er hraður leikur þar sem mikil pressa er sett á boltann.“

Og menn verða að vera tilbúnir að gera sömu æfinguna, þótt hún sé leiðinleg, aftur og aftur. „Menn verða að vera rólegir og stíga eitt skref í einu. Ég er alltaf spurður á æfingum: „Spilum við fótbolta?“ Til að geta spilað verðum við að læra að stoppa boltann, senda og skjóta.“

 

Sjálfur er Gorazd alinn upp í Júgóslavíu sem var ein fremsta knattspyrnuþjóð heims. „Við gerðum mikið af tækniæfingum. Stundum æfðum við bara sendingar, móttökur, skot, einn á einn eða leikkerfi, hvernig við ætluðum að standa á vellinum.“

 

gorazd_0008_web.jpg

Sló aldursmet Darko Pancev

Gorazd hóf sinn feril hjá Vardar Skopje, einu sterkasta liði Makdóníu. Hann sló met þegar hann var 16 og tíu mánaða þegar hann lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu. Hann átti þá þegar að baki landsleiki með U-16 og U-17 ára landsliðum Júgóslavíu.

Aldursmetið hjá Vardar átti sóknarmaðurinn Darko Pancev, sem spilaði um tíma með Inter á Ítalíu og varð Evrópumeistari með Rauðu Stjörnunni í Belgrad þar sem hann skoraði 89 mörk í 91 deildarleik. Darko og Gorazd spiluðu um tíma saman hjá Vardar áður en leiðir þeirra lágu í ólíkar áttir.

Makedónía varð fljótt sjálfstætt ríki eftir að borgarastríðið í Júgóslavíu braust út. Gorazd var valinn í U-21 ára landsliðið en eftir 26 leiki með Vardar skipti hann yfir til Etsgebirdge Auer í næst efstu deild í Þýskalandi. Þar var hann í þrjú ár áður en færði sig svo til FC Publikum í Slóveníu. Með liðinu spilaði hann í tvö ár, varð slóvenskur bikarmeistari og tók þátt í Evrópukeppni félagsliða.

Stórlið Maribor kom auga á Gorazd og samdi við hann. Með liðinu varð hann slóvenskur meistari og bikarmeistari og lék gegn hollenska stórliðinu Ajax í Evrópukeppni Meistaraliða. Næst lá leiðin til Chugarritsky í Serbíu og svo til Hvidövre í Danmörku. Liðið fór upp í úrvalsdeild fyrstu leiktíðina sem Gorazd lék með því en féll strax aftur. 

Gorazd segist hafa viljað vera í úrvalsdeild þanni hann fór heim til Makedóníu og varð bikarmeistari með Pelister. Stoppið var aðeins eitt ár. Árið 2001 samdi hann við Kalikratie í Grikklandi og lék þar í þrjú ár. Síðasta árið fyrir Íslandsförina þjálfaði hann lið í næst efstu deild í Makedóníu sem varð í þriðja sæti deildarinnar og komst í fjórðungsúrslit bikarkeppninnar.

Umgjörðin frábær á Íslandi

Gorazd segir Makedóníumenn geta um margt lært af íslenska skipulaginu. Það hafi lagt grunninn að góðum árangri U-21 árs landsliðs karla, sem komst í lokakeppni Evrópumótsins í fyrra, og einu besta kvennalandsliði álfunnar.

„Ísland er með frábært kerfi í yngri flokkum. Íslandsmótið og allar keppnir eru frábærlega upp byggðar. Það kom því ekki á óvart að U-21 árs landsliðið næði svona langt. Ég sagði fólkinu heima í Makedóníu frá hvernig væri hugsað um umgjörðina og spurði: „Hvenær komumst við í svona keppni?“ Íslendingar eru með miklu betri leikmenn fyrir framtíðina heldur en Makedóníumenn. Það er búið að leggja mikla áherslu á menntun þjálfara og framtíðina sem meðal annars hefur skilaði einu af tíu bestu kvennaliðum Evrópu.“

Egilsstaðir og Austurland eru mitt annað heimili

Eftir sjö ára veru ákvað Gorazd að nóg væri komið af Íslandi í bili. Hann á konu og tíu ára dóttur heima í Makedóníu og fjarveran hefur tekið á. Hann heldur samt enn áfram að ferðast. Þegar Agl.is heyrði í honum í vikunni var hann að kynna sér aðstæður hjá Inter í Mílanó og var meðal áhorfenda á 4-2 sigri liðsins á nágrönnunum í AC Milan á sunnudaginn var.

„Ég hef verið 8-9 mánuði á Íslandi undanfarin ár. Það hefur verið erfitt, það er vont að vera mikið aðskilin. Fjölskyldan er samt vön þessu. Konan mín vann í Makedóníu á meðan ég var atvinnumaður og dóttir mín hefur komið og heimsótt mig hingað. Ég er World Man.“

Það tók samt á að kveðja Egilsstaði. „Ég sagði við fólkið í Makedóníu: „Mig langar heim.“ Egilsstaðir eru heima. Ég gleymi aldrei Egilsstöðum og fólkinu sem stóð við bakið á mér. Það verður vinir mínir alla tíð. Ég hef aldrei verið jafn lengi á einum stað. Egilsstaðir og Austurland verða alltaf mitt annað heimili en það er komið nóg í bili. Maður á samt aldrei að segja aldrei – kannski kem ég aftur.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.