Hlaupið á tíu stöðum eystra í kvennahlaupinu

Kvennahlaup

Hið árlega Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram á laugardaginn. Hlaupið verður á tíu stöðum á sambandssvæði UÍA.

 

Kvennahlaupið er einn stærsti íþróttaviðburður ársins en hlaupið verður á 80 stöðum hérlendis og á 20 stöðum erlendis. Undanfarin ár hafa hlaupararnir verið í kringum 15 þúsund sem taka þátt í Kvennahlaupinu.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands fagnar um þessar mundir 100 ára afmæli sínu og því hefur mikið verið lagt í hlaupið í ár. Hátíðardagskrá verður á mörgum hlaupastöðum og víða verður frítt í sundlaugar fyrir þátttakendur að loknu hlaupi. 

Hefð hefur skapast hjá mæðgum, systrum, frænkum og vinkonum að mæta saman í hlaupið og hvetja hver aðra áfram. Konur geta kynnt sér nálæga hlaupastaði á vef Sjóvá en þar má einnig finna upplýsingar um tímasetningar hlaupa, lengdir og skemmtidagskrá á hverjum stað fyrir sig.

Á sambandssvæði UÍA verður hlaupið á tíu stöðum: Vopnafirði, Egilsstöðum, Seyðisfirði, Borgarfirði, Reyðarfirði, Eskifirði, Neskaupstað, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík.

Kvennahlaupsbolirnir í ár eru rauðir með V hálsmáli og úr teygjanlegu DRI-FIT efni sem andar vel. Þátttökugjaldið er 1.250 kr. en innifalið í því er bolurinn og verðlaunapeningur við endimörk hlaupsins. Auk þess fá allir þátttakendureinnig glaðning frá NIVEA og Ölgerðinni. 

Markmið Kvennahlaupsins er að hvetja konur til þess að hreyfa sig og stunda heilbrigt líferni. Á hverju ári er valið eitt málefni tengt konum til þess að vekja athygli á en í ár var ákveðið að fara í söfnunarátak í samstarfi við Rauða krossinn. Reynsla Rauða krossins er sú að brjóstahöld og önnur nærföt skila sér sjaldan í hefðbundnum fatasöfnunum en mikil eftirspurn er eftir slíkum fatnaði víða um heim. 

Konur sem taka þátt í Kvennahlaupinu eru hvattar til þess að taka með sér gömul brjóstahöld í hlaupið og láta þar með gott af sér leiða, en sérstakir móttökugámar fyrir fatnaðinn verða staðsettir við öll rásmörk hlaupsins.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.