Orkumálinn 2024

Höttur-Leiknir í beinni á Austurfrétt

Höttur botnbarátta

Austurfrétt sýnir á morgun leik Hattar og Leiknis Reykjavíkur í 1. deild karla í knattspyrnu í beinni netútsendingu en útlit er fyrir að leikurinn verði hreinn úrslitaleikur um hvort liðið haldi sæti sínu í deildinni. Fjarðabyggð leikur einnig úrslitaleik um veru sína í annarri deild karla á morgun.

 

„Þetta er tilraun sem við hlökkum til að takast á við,“ segir Dagur Skírnir Óðinsson, markaðsstjóri Austurfréttar. Netútsendingin hefur verið prófuð í vikunni og virkað. Þegar eitthvað er gert í fyrsta sinn getur alltaf brugðið til beggja vona.

Höttur er tveimur stigum á undan Leikni þegar tvær umferðar eru eftir. Sigri Höttur hefur liðið tryggt áframhaldandi veru sína í deildinni. Jafntefli eða tap þýða að örlögin ráðast ekki fyrr en í lokaumferðinni. Höttur heimsækir þá deildarmeistara Þórs á Akureyri en Leiknir fær nágrannana og erkifjendurna í ÍR í heimsókn.

Mikill áhugi á leiknum 

„Við finnum fyrir miklum áhuga á leiknum á morgun. Bæði eru margir að austan farnir í skóla og eiga því erfitt með að fylgjast með liðinu sínu og svo langar Leiknismenn líka að sjá leikinn. Ef þessi útsending gengur vel þá fikrum við okkur örugglega áfram með fleiri viðburði,“ segir Dagur.

Leikurinn hefst klukkan 14:00 en reikna má að útsendingin hér á austurfrett.is verði komin í loftið nokkrum mínútum fyrr.

Líka úrslitaleikur hjá Fjarðabyggð 

Fjarðabyggð á ekki síður mikilvægan leik á Eskifjarðarvelli á sama tíma þegar Afturelding kemur í heimsókn. Fjarðabyggð á enn von um að halda sæti sínu í deildinni en verður að vinna báða leiki sína og Grótta að tapa báðum sínum.

Á miðvikudag lauk draumi Leiknis um að komast upp í aðra deild þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Sindra á Búðagrund í seinn undanúrslitaleik liðanna í þriðju deild. Fáskrúðsfirðingar voru yfir lengst af í leiknum með marki Baldurs Smára Elfarssonar en Fijad Mehanovic jafnaði þremur mínútum fyrir leikslok.

Það var samt 5-1 sigur Sindra í fyrri leiknum sem réði úrslitum í rimmunni. Leiknismenn geta samt verið sáttir við sitt því þeir eru komnir í nýju þriðju deildina sem leikið verður í á næsta ári. Þeir leika við Magna á morgun klukkan 14:00 um þriðja sætið. Leikstaður hefur ekki enn verið staðfestur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.