Öruggur sigur á Þór í fyrsta leik: Vorum flottir í þessum leik: Myndir

Höttur Þór Akureyri

Höttur burstaði Þór frá Akureyri 100-81 í fyrstu umferð fyrstu deildar karla í körfuknattleik á Egilsstöðum á fimmtudagskvöld. Hattarmenn voru með örugga forustu allt frá fyrstu sekúndunum. Þjálfari liðsins var ánægður með frammistöðuna, sérstaklega varnarleikinn.

Hattarmenn skoruðu fyrstu körfuna og komust í 11-0 áður en gestirnir svöruðu fyrir sig. Það var ekki mikið svar, Höttur var fljótlega kominn í fimmtán stiga forustu, 18-3. Segja má að sú forusta hafi haldist allan leikinn.

Staðan eftir fyrsta fjórðung var 25-12 og 47-36 í hálfleik. Austin Bracey var sjóðheitur í fyrri hálfleik, nánast hvert einasta skot hans virtist fara beint ofan í körfuna. Frisco Sandidge sýndi fjölhæfni sína, tróð boltanum í einni sókn og skoraði með þriggja stiga skoti í þeirri næstu. Hattarmenn héldu ákafir áfram, vel studdir í fullu íþróttahúsinu á Egilsstöðum.

Þórsarar voru eiginlega aldrei með. Hinn nýi þjálfari, Bjarki Oddsson sem lék síðasta vetur með Hetti, reyndi að breyta liðinu til að glæða það lífi en það gekk lítið. Bjarki var einn af lykilmönnum Hattar en var ekki einu sinin á skýrslu sem leikmaður í gær. Hann hlýtur að velta fyrir sér hvort hann vilji ekki spila til að hjálpa Þórsliðinu í vetur. Aðeins í lok annars fjórðungs dró saman með liðunum.

Skellt í lás í þriðja leikhluta 

Leikur Þórs batnaði ekkert eftir hálfleik. Hattarmenn einfaldlega lokuðu vörninni. Fyrstu sjö mínútur hálfleiks skoruðu gestirnir frá Akureyri aðeins fimm stig. Sókn Hattarmanna gekk ekkert frábærlega, ef ekki hefði verið fyrir tveggja mínútna kafla þar sem liðið skoraði ekki hefði sigur Egilsstaðaliðsins orðið enn stærri. 

Þórsarar virtust hafa náð að efla sinn varnarleik að því leyti að Austin átti ekki jafn greiða leið að körfunni. Frisco hélt hins vegar áfram að skora stigin.

Staðan í lok þriðja leikhluta var 71-53. Tuttugu stiga forskotið var komið til að vera og var endanlega innsiglað með þriggja stiga körfu þjálfarans Viðars Arnar Hafsteinssonar á lokasekúndunni. Þórsarar reyndu að breyta varnarleik sínum og spila pressuvörn. 

Hattarmenn virtust eiga í vandræðum með hana, töpuðu boltanum til dæmis tvisvar í tveimur sóknum framarlega á vellinum. Fyrri sóknin endaði með körfu en í seinna skiptið varði Frisco skotið gestanna, Höttur brunaði upp í sókn og skoraði þriggja stiga körfu.

Virkilega flottir 

Góð viðleitni, svo nálægt en niðurstaðan: svo langt, langt í burtu. Saga Þórs allt kvöldið.

„Við vorum virkilega flottir í dag,“ sagði Viðar Örn í samtali við Austurfrétt eftir leikinn. „Við spiluðum frábæran varnarleik í byrjun og fengum auðveldar körfur strax í byrjun. Boltinn gekk vel og Austin og Frisco tóku af skarði. Ungu strákarnir hafa stigið vel upp síðan í fyrra.“

Frisco Sandidge var stigahæstur í liði Hattar með 33 stig, auk þess að taka 12 fráköst og gefa 8 stoðsendingar. Bjarni Konráðsson skoraði 22 stig fyrir Þór og Darco Milosevic 20. Hann tók einnig 12 fráköst og stal boltanum fimm sinnum.

Höttur mætir næst ÍA á Akranesi á föstudagskvöld.

 

hottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012_0023_web.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpghottur_thorak_karfa_11102012.jpg

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.