Viðar Örn: Ef þetta er 400 metra hlaup þá eru 200 metrar eftir og grindur á leiðinni

karfa hottur thorak 25032014 0126 webÞjálfari körfuknattleikslið Hattar segir liðið aðeins komið hálfa leið að takmarki sínu um að spila í úrvalsdeild á næstu leiktíð eftir að hafa slegið Þór út í undanúrslitum með 79-78 sigri á Egilsstöðum í gærkvöldi. Þjálfari Þórs segir leikaðferð liðsins hafa komið í bakið á því.

„Úrvalsdeildin er að sjálfsögðu markmiðið en það er heill hellingur eftir. Ef við líkjum þessu við 400 metra hlaup þá eru 200 metrar eftir og líklega eru grindur á þeirri leið," sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hatta, í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.

Hann segir Hattarliðið hafa unnið mikið afrek með að slá út sterkt lið Þórs. „Við unnum hér þrusulið og það sést vel á að þrír af fjórum leikjum liðanna í vetur hafa unnist með einu stigi. Það er leitt að sjá svona gott lið falla úr leik.

Sigurinn sýnir hins vegar hörku karakter í okkar liðið og gerir frammistöðu okkar enn betri. Í því eru strákar með stórt hjarta," segir Viðar en Höttur var undir mest allan leikinn.

Vendipunktur virtist verða þegar Gerald Robinson fékk slæman skurð á ennið undir lok þriðja leikhluta. Hann þurfti að yfirgefa salinn en frammi á gangi „púsluðu sjúkraþjálfari og aðstoðarmenn honum saman."

Benedikt Guðgeirsson kom inn í miðvarðarstöðuna á meðan og átti frábæra innkomu. „Þar snérum við leiknum. Torfastaðatröllið var rosalegt þegar það kom inn."

Gerald var ekki frá í nema um fimm mínútur. Hann kom aftur inn á og leiddi Hattara til sigurs með að skora mikilvægar körfur á lokamínútum og verja síðasta skot leiksins.

„Við gáfum í þegar við sáum Gerald koma inn vafinn, blóðugan og með glóðarauga á báðum og menn gerðu sér grein fyrir hvílíkur töffari hann er. Hann skoraði risakörfur í lokin."

Þetta síðasta atvik leiksins var þó umdeilt. Þórsarar vildu fá villu dæmda á Gerald, sem hefði fært þeim tvö vítaskot og mögulega sigur hefðu þau bæði farið ofan í. Þeir létu dómara leiksins heyra það eftir leikinn og hlaut einn leikmanna Akureyringa brottvísun úr húsi fyrir ósæmilega framkomu.

„Ég ætla ekki að dæma um hvor býr til snertinguna en dómararnir voru vel staðsettir og stóðu sig vel í kvöld."

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, neitaði að tjá sig um sína hlið á atvikinu þegar hann var beðinn um það eftir leik. „Ég segi bara no comment."

Hann viðurkenndi hins vegar að það hefði reynst Þórsurum erfitt að nota fyrst og fremst fimm leikmenn. Þrír leikmenn léku allan leikinn og tveir í viðbót yfir 35 mínútur en þeir lentu í villuvandræðum. Alls komu sjö leikmenn Þórs við sögu í kvöld.

„Það var dýrt að missa Svenna (Sveinbjörn Skúlason) í meiðsli í síðasta leik og ég taldi ekki ungu strákana hafa reynslu í svona leiki. Við lögðum leikinn upp á ákveðinn hátt sem gekk upp framan af en það kom í bakið á okkur í lokin að spila á fáum mönnum."

Bjarki hrósaði sérstaklega Sveini Blöndal sem var lykilmaðurinn í flestum sóknum Þórs. „Hann er besti leikmaðurinn í þessari deild," sagði Bjarki.

Hann sagði að í lokin hefðu Þórsarar farið illa með sín færi en Hattarmenn nýtt sín. Aðspurður að því hvort leiðin yrði löng heim á Akureyri í kvöld svaraði hann: „Nei, við spilum bara trivial og höfum gaman."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.