Orkumálinn 2024

Yfirheyrslan: Kom á óvart hvað æskuvinirnir eru orðnir gamlir

Hálfdán Helgi Helgason líffræðingur og Eskfirðingur flutti nýverið með fjölskyldu sinni til Norðfjarðar eftir hafa búið í Noregi um nokkurt skeið. Hálfdán er í yfirheyrslu vikunnar.

 

Hálfdán segir að ástæða flutninganna hafi verið sú að honum bauðst áhugaverð vinna hjá Náttúrustofu Austurlands. Hann flutti frá Tromsö í norður Noregi þar sem bjó ásamt konu sinni Elínborgu og börnum þeirra tveimur.  Þar starfaði hann sem líffræðingur hjá Norsku Heimskautastofnuninni.

Hann er stofnvistfræðingur að upplagi og flest verkefnin innan Náttúrustofunnar liggja þar. “En ég er svona hægt og bítandi að komast að því og finna minn stað innan stofunnar, það liggur fyrir stór bunki af fjölbreyttum verkefnum og við erum öll á kafi í þeim. Svo er enn stærri bunki af áhugaverðum hugmyndum sem þarf að vinna í að koma í framkvæmd,” segir Hálfdan þegar hann inntur eftir í hverju starf hans fellst innan Náttúrustofunnar.

Hálfdán vill meina að starfið hér heima sé að mörgu leyti svipað og því í Noregi. „minni áhyggjur af ísbjörnum og verkefnin eru kannski dálítið fjölbreyttari. Að koma inn í nýja stöðu neyðir fólk dálítið útfyrir þægindarammann, ég var mest að vinna að stofnvöktun sjófugla úti en alla veganna í augnablikinu er ég núna að vinna meira með mófugla og gæsir,“ segir hann.

Honum finnst búið að vera virkilega gaman að koma sér fyrir á heimslóðum eftir öll þessi ár. „Það kom mér reyndar mjög á óvart hvað æskuvinirnir eru allir orðnir gamlir. Sömuleiðis er gaman að sjá uppbygginguna sem orðið hefur svo ekki sé talað um allar þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í til að fegra bæina sjálfa,“ segir Hálfdán að lokum.

 

Yfirheyrslan

Fullt nafn: Hálfdán Helgi Helgason

Aldur: þrjátíu og eitthvað, hættur að telja.

Starf: Líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.

Maki: Elínborg Sædís Pálsdóttir.

Börn: Jökla Dröfn Hálfdánardóttir og Helgi Jökull Hálfdánarson

Áhugamál? Veiðar, fuglar, ljósmyndun og útivist.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Ómögulegt að velja, fer eftir árstíma en Jökuldalsheiðin og Vöðlavíkin eru alla veganna ofarlega á lista.  

Hver er þinn helsti kostur? Ákveðni og seigla.

Hver er þinn helsti ókostur? Frekja og þrjóska.

Hver er alltaf til í ísskápnum hjá þér? Á meðan við bjuggum úti var nánast alltaf til þurrkuð hreindýra-pulsa eða hráskinka í ísskápnum. 

Ertu nammigrís? Já og nei, kannski ekki sætindagrís, ég er hrifnari af öðruvísi nammi, harðfisk, söl, jerky o.þ.h.    

Kaffi eða te? Kaffi

Hvað er leiðinlegasta húsverkið og af hverju? Má ég ekki bara segja öll og af augljósum ástæðum? Finnst einhverjum eitthvað húsverk skemmtilegt? 

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Ég bara veit það ekki, er ekki ennþá búinn að upplifa týpískan dag hérna. Það er alltaf eitthvað nýtt í gangi.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Stundum þegar ég er hræddur um að ég sé að hlaupa eitthvað á mig hugsa ég stundum hvernig gamli kennarinn minn, Páll heitinn Hersteinsson hefði tæklað vandamálið. 

Mesta afrek? Börnin, klárlega, þó að Elínborg eigi nú nánast algjörlega heiðurinn af þeim. En þess utan held ég að mitt mesta afrek sé að hafa haldið í Elínborgu í 17 ár.  

Duldir hæfileikar? Óvenju hraður hárvöxtur. 

Besta bíómynd allra tíma? 7even eða Silence of the lambs.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Glaðlyndi og aðgengi að veiðisvæðum.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Að upplifa söngtifu(cicada)-topp, kaupa fasteign, komast í club 300 (fuglategundir séðar á Íslandi), taka pungaprófið og læra að telja og fara eftir leiðbeiningum.   

 

Hálfdán Helgi með vini sínum.  Myndin er aðsend.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.