Orkumálinn 2024

Yfirheyrslan: „Ég hef yfirsýn á við ánamaðk"

Listamaðurinn og leikarinn Kolbeinn Arnbjörnsson flutti ásamt konu sinni Kötlu Rut Pétursdóttur á Seyðisfjörð í byrjun síðasta sumars. Þau vinna nú á fullu við uppsetningu á nýju íslensku leikverki sem heitir Skarfur og er eftir Kolbein sjálfan. Verkið verður frumsýnt á Seyðisfirði á næsta ári. Leikverkið Kolbeinn er í yfirheyrslu vikunnar

 

Hann segir að lífið fyrir austan hafi heillað. „Hér líður okkur ofboðslega vel. Á Seyðisfirði er gott fólk og maður finnur sterkt fyrir samfélaginu og samtakamættinum. Það að geta boðið börnunum og auðvitað okkur sjálfum uppá meiri nálægð við náttúru, minni tíma í umferð og einfaldara og innihaldsríkara líf. Svo er Katla konan mín upp hérna gerir þetta ennþá betra,“ segir Kolbeinn.

Eins og fram hefur komið vinna þau hjónin að uppsetningu nýs íslensks sviðsverks sem heitir Skarfur. „Við Katla Rut, konan mín, stofnuðum sviðslistafélagið Lið fyrir lið þegar við fluttum hingað og er þetta fyrsta atvinnusýningin okkar undir þeim merkjum. Pétur Ármannson frá Fellabæ mun leikstýra verkinu og Benni Hemm Hemm sér um tónlist og hljóðheim. Svo erum við með fullt af góðu fólki hérna í bænum sem er að vinna með okkur á öllum póstum,“ útskýrir Kolbeinn. 

Að sögn Kolbeins fjallar verkið Skarfur í grunninn um áhyggjufullan föður sem hefur ástríðu fyrir uppstoppun á fuglum. Áhyggjur um að hann sé mögulega að skemma börnin sín leiða hann svo á vit óvænts ferðalags og ævintýra um tíma og rúm. Semsagt raunsæis stofudrama með dassi af náttúru og vísindaskáldskap.

Kolbeinn er í yfirheyrslu vikunnar. 

 

Yfirheyrslan

Fullt nafn: Kolbeinn Arnbjörnsson

Aldur: 36

Starf: Leikari og höfundur

Maki: Katla Rut Pétursdóttir

Börn:  Módís Klara og Sólborg Sara

Áhugamál? Matur, Hreyfing, Veiði, Fótbolti

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Þeir eru nokkrir - en ég á mér versta staðinn. Svokallaðan martraðastað. Það er Seyðisfjarðarvöllur eftir 7-1 tap fyrir Huginn árið 2005 þegar ég lék með Leiftri/Dalvík.

Mesti áhrifavaldur í listaheiminum? Kennarar í gegnum tíðina, sem eru jú auðvitað líka listamenn. Margrét Steingrímsdóttir þegar ég var í grunnskóla, Guðmundur Ármann þegar ég lærði myndlist og Ólöf Ingólfsdóttir úr leiklistarnáminu.

Þú ert með matarboð, hvaða þrjár manneskjur úr mannkynssögunni myndir þú bjóða og af hverju? Og hvað myndirðu elda? Ég er mjög lélegur í aðstæðum með fólki sem ég þekki ekki neitt svo ég myndi bjóða vini mínum sem fór alltof snemma og afa mínum sem gæti tekið fram skemmtarann þegar matarboðið myndi færast á næsta level.

Hlustarðu á tónlist þegar þú þarft innblástur? Ef svo er hvaða og af hverju? Já. Allt mögulegt. Bý til playlista á spotify fyrir hvert verkefni fyrir sig.

Um hvað hugsar þú þegar þú ert einn í bíl að keyra? Hvort ég hafi slökkt á eldavélinni.

Hver er þinn helsti kostur?  Næmni

Hver er þinn helsti ókostur Næmni

Hvað er alltaf til í ísskápnum hjá þér og af hverju? Haframjöl, mjólk og hnetusmjör.

Ertu nammigrís? Nei. En ég á í flóknu sambandi við súkkulaði. 

Kaffi eða te? Kaffi

Hvað er leiðinlegasta húsverkið og af hverju? Skipuleggja og taka til í skúffum og skápum. Því ég hef yfirsýn á við ánamaðk.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér?  Hvað er það?

Mesta afrek? Að ég sé giftur konunni minni og eigi þessi 2 börn. Er alltaf að bíða eftir því að einhver uppljóstri mig sem einhvers konar loddara. 

Duldir hæfileikar frekar góður í að giska á hvaða dagur er.

Hvað var síðasta gjöf sem þú gafst einhverjum? Fallegt íslenskt dagatal sem ég gaf konunni minni.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Auðmýkt og víðsýni 

Topp þrjú á þínum „bucket list“?  Vakna, njóta, lifa. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.