Orkumálinn 2024

Yfirheyrslan: Ég er þrjóskur og gefst aldrei upp!

Stefán Númi Stefánsson er 24 ára héraðsbúi sem hefur spilað amerískan fótbolta í Danmörku undan farin ár er nú á leiðinni í spænsk deildina. Hann stefnir á að komast alla leið í þessari íþrótt. 

Stefán fékk upphaflega áhuga á körfubolta og æfði með Hetti á Egilsstöðum. „Ég byrjaði að fylgjast með NBA á barnsaldri þar sem bróðir minn, Guðjón Bragi Stefánsson, spilaði körfubolta. Ég hafði mikinn áhuga á þeirri íþrótt. Það hjálpaði líka að körfubolti var eina íþróttin á Egilsstöðum sem bauð upp á smá „contact“ og styrkleika sem ég hef alltaf sótt mikið í,“ segir Stefán Númi.

Hann var fengin út til að spila fyrir Horsens Stallions í Danmörku fyrir tveimur árum síðan og spilaði eitt tímabil með þeim. Þaðan lá leiðin í Aarhus Tigers þar sem hann spilaði líka eitt tímabíl. Nú hefur hann vakið áhuga á liðum út um alla Evrópu og er hann á leiðinni til Spánar eftir áramót. Nánari umfjöllun um Stefán má finna í næsta tölublaði Austurgluggans. 

En Stefán Númi er í yfirheyrslu vikunnar.

Yfirheyrslan:

Fullt nafn: Stefán Númi Stefánsson

Aldur: 24 ára

Starf: Yngriflokkaþjálfari Aarhus Tigers 

Maki: Enginn

Börn: Engin

Áhugamál? Ameríski fótboltinn er klárlega númer 1 hér á lista! En auk hans er líkamsrækt en þetta hangir jú, að sjálfsögðu saman. Einnig hef ég mikinn áhuga á ljósmyndun, myndbandagerð, fjallgöngum og veiðum! Bæði skotveiði og stangveiði. Ég reyni að fara hvert einasta ár á rjúpu, gæs og fiskerí. Því miður hef ég ekki náð því í ár og hefur það mig kitlað verulega fingurnar að frétta af félögum mínum á veiðum þetta haustið! Einnig er ég mikill skíða- og snjóbretta áhugamaður og finnst mér ekkert skemmtilegra en að standa upp á fjalli í algjörri kyrrð og „zone” út frá öllu! 

Mesti áhrifavaldur í íþróttaheiminum? 

Þetta er mjög góð spurning. Það eru virkilega margir sem hafa haft áhrif á mig í gegnum tíðina. Ég verð að byrja með Michael Jordan, Kobe Bryant og Shaq. Þeir höfðu allir mikil áhrif á mig á meðan ég var í körfuboltanum en einnig núna! En úr fótboltaheiminum er það klárlega JJ Watt (Defensive End hjá Huston Texas) og Taylor Lewan (Left Tackle hjá Tennessee Titans).

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi?

Það koma margir staðir til greina! Breiðdalsvík er einn þeirra en einnig Jökulsárhlíð á Héraði. Á báðum þessum stöðum liggja ræturnar. En ef ég á að segja alveg satt þá er Borgarfjörður eystri og umhverfi uppáhalds staðurinn á Austurlandi. Það er eitthvað svo nærandi að koma þangað hvort sem það er vetur, vor, sumar eða haust. Ég sækist í náttúrufegurðina sem er þar í kring, kraftinn frá fjöllunum og kyrrðina sem umlykur allt.

Hver er þinn helsti kostur? 

Ég er þrjóskur og gefst aldrei upp! Held alltaf áfram og reyni að gefa 120% í allt!

Hver er þinn helsti ókostur? Ég á það til að vera óttalegur haugur haha! En það hefur mikið skánað eftir að ég flutti erlendis og byrjaði í boltanum og setti mér markmið.

Hver er alltaf til í ísskápnum hjá þér og af hverju? 

Það er alltaf hægt að finna kjúkling í ískápnum hjá mér auk BBQ/Hot sauce. Mér finnst þetta kombó vera algjört sælgæti! 

Ertu nammigrís? 

Klárlega! Ég get ekki neitað því að ég sé með „sykurtönn“! Ég borða samt ekki oft nammi en ég á það til að stelast í kökur, kex og gos. Ég hef það sennilega frá pabba gamla! (Stefán Snædal Bragason)

Kaffi eða te? 

Kaffi! Klárlega! Ég hef ekki ennþá lært að njóta tes. 

Hvert er leiðinlegasta húsverkið og af hverju?  

Satt best að segja, þá er það að taka til í herberginu mínu! Brjóta saman þvott og þurrka af hillum og skápum! En maður reynir samt að gera það besta út stöðunni og setja heyrnatólin á sig og tónlistina á fullt.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? 

Týpískur dagur hjá mér, eins og staðan er núna, er að vakna nokkuð snemma, fá mér morgunmat, horfa á nokkur myndbönd af fótbolta til að verða betri eða horfa á „highlights“ frá NFL eða College Football og búa til góðan gagnabanka af tækni fyrir komandi tímabil. Um hádegisbilið fæ ég mér hádegismat og undirbý mig fyrir ræktina. 

Eftir smá rólegheit fer ég svo í ræktina og er þar í allt að 2-3 tíma að lyfta og æfa ákveðnar hreyfingar auk þess að hlaupa eða hjóla. 

Eftir að ég kem heim úr ræktinni er það jú auðvitað að skutla í mig próteini og gera mig kláran að hitta félaga mína þar sem við reynum að hittast sem oftast og bralla eitthvað saman. Eða að ég fer og þjálfa yngri flokkana. 

Eftir það er kvöldmatur svo spjalla ég stundum við fjölskylduna heima á Íslandi eða hef það náðugt yfir mynd, NBA, NFL eða College Football. 

Hver er þín helsta fyrirmynd?  

Mín helsta fyrirmynd er án efa bróðir minn! Sterkari einstakling hef ég ekki fundið og mun eflaust ekki finna þótt víða væri leitað! En að sjálfsögðu er fjölskyldan öll mín fyrirmynd! En foreldrar mínir eru og hafa verið mín stoð og stytta í lífinu.

Mesta afrek? 

Ætli það sé ekki ógilt Íslandsmet í kúluvarpi árið 2005, en þá var ég 10 ára. Þegar ég setti metið var ég svo mikill sauður að labba inn á brautina og þar með ógilda kastið hahaha!

Nei, annars. Að mínu mati get ég ekki metið eitthvað afrek eins og er! Nú er ferillinn til dæmis vonandi rétt að byrja og nóg eftir að bralla til að vinna eitthvert afrek! 

Um hvað hugsar þú þegar þú ert einn í bíl að keyra? 

Hugurinn minn reikar um allt þegar ég er einn í bílnum með góða tónlist og náttúruna í kringum mig! Það getur verið allt frá veiðum yfir í fjallgöngur og skíðaferðir.

Hver var síðasta gjöf sem þú gafst einhverjum?

Síðasta gjöf sem ég gaf einhverjum er Minnesota-Vikingsbolur og derhúfa. 

Besta bók sem þú hefur lesið? 

Ég hef nú í rauninni ekki lesið mikið mér til skemmtunar eftir grunnskóla. En ég kláraði nýlega The Mamba Mentality eftir Kobe Bryant.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? 

Það að vera góð manneskja kemur þér langt að mínu mati! Kurteisi, heiðarleiki, húmor, hressleiki, hreinskilni og dugnaður er sennilega það sem ég kann best að meta.

Topp þrjú á þínum „bucket lista“? 

Að komast í NFL, ferðast um heiminn og að lifa heilbrigðu lífi í faðmi fjölskyldu og vina!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.