Vopnfirðingar taka á móti aðventunni á sunnudag

Leikskólabörn voru viðstödd þegar kveikt var á jólatré Vopnfirðinga í morgun. Verslunar- og þjónustuaðilar þar hafa tekið höndum saman um að glæða bæinn lífi á sunnudag.

„Við erum að gera þetta í þriðja skipti. Þetta byrjaði með stelpu sem flutti hingað frá Dalvík, þar sem svona hefur verið, og kom þessu af stað. Þótt hún sé flutt þá reynum við að halda hefðinni við,“ segir Guðrún Anna Guðnadóttir, hárgreiðslukona í Solo á Vopnafirði.

Þar hafa verslunar- og þjónustuaðilar tekið sig saman um að hafa opið milli 14 og 16 á sunnudag, en hjá sumum er opið lengur. Ýmislegt fleira verður í boði og teygir aðventuröltið sig víða um bæinn. Söngstund verður hjá hvítasunnusöfnuðinum og handverksfólk opnar heimili sitt.

Þá opnar sýningin „Smáheimar“ í Kaupvangi. Verkin eru unnin af Vopnfirðingum undir stjórn Sigrúnar Láru Shanko. Á sýningunni eru þrívíddarverk sem sýna brot úr íslenskum þjóðsögum. Efnið í verkin er að mestu endurunninn eða fundinn í náttúrunni.

Þá verður einnig sýning þennan dag á leikföngum frá því fyrir árið 1964 í eigu bæjarbúa. Búist er við að jólasveinar verði einnig á ferð um bæinn.

„Við höfum verið með þetta á virkum kvöldum og íhuguðum það núna, en síðan opnaðist möguleikinn á að tengjast sýningunni,“ útskýrir Guðrún Anna.

Fleiri verslunar- og þjónustuaðilar á Vopnafirði taka þátt í aðventuröltinu nú og Guðrún Anna vonast til að heimafólk og jafnvel gestir taki vel í framtakið.

„Það hefur verið töluvert um að fólk fari í burtu og versli annars staðar. Hér hefur vantað þessa aðventuhefð sem er víða annars staðar og var hérna. Ég man eftir henni niður á Kaupfélagsplani þegar ég var barn, þar var hljómsveit og fleira skemmtilegt. Nú erum við að reyna að skapa þessa hefð og búa til skemmtilega jólastemmingu á heimavelli.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.