Vinningsmiðinn var ofan í skúffu

Eigandi að Lottómiða með 25 milljóna króna vinningi, sem keyptur var á Seyðisfirði síðasta sumar, hefur gefið sig fram. Vinningshafar sem Íslensk getspá auglýsti eftir nýverið eru allir komnir fram.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri getspár, sem nýverið auglýsti eftir tveimur austfirskum vinningshöfum sem ekki höfðu vitjað vinninga sinna. Annar var dreginn út síðasta sumar og vann 25 milljónir, hinn í byrjun mars og fékk fjórar.

Miðinn á Seyðisfirði var seldur í söluskálanum Dalbotna þann 7. júlí og á hann komu 25 milljónir króna.

Í tilkynningunni segir að eigandi miðans hafði ekki hugmynd um að gamall óyfirfarinn Lottómiði, sem legið hafði vel gleymdur ofan í skúffu frá síðasta sumri, geymdi allar þessar milljónir.

Það var ekki fyrr en eftir að hann sá frétt um ósóttu vinningana að hann skoðaði miðann og uppgötvaði vinninginn.

Að vonum var vinningshafinn himinlifandi með þennan glæsilega vinning og var varla farinn að trúa þessu er hann kom með vinningsmiðann á skrifstofu Getspár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar