„Viljum verða sérfræðingar í sjálfbærri hugsun“

Pálmi Einarsson iðnhönnuður og Oddný Anna Björnsdóttir viðskiptafræðingur tóku sig upp síðasta sumar, seldu parhús í Kópavogi og keyptu jörðina Gautavík í Berufirði. Þar hyggjast þau stunda tilraunir í sjálfbærni, meðal annars eigin orkuframleiðslu og ræktun hamps sem nýtist sem hráefni í framleiðslu þeirra á hönnunarvörum.

Sveitin býr í Pálma þótt hann hafi alist upp í Kópavogi. Sem barn var hann í sveit á Brunnum í Suðursveit og þegar hann var ellefu ára samdi hann við foreldra sína um að fá að vera þar yfir veturinn og fara í skóla.

„Þegar maður er orðinn 10-12 ára og getur farið á Land Rover inn í dal að veiða þá er það langsniðugast. Ég hætti að fara til baka úr sveitinni og var á Brunnum fram yfir tvítugt,“ segir Pálmi í viðtali í Austurglugganum.

Rak snókerstofu á Egilsstöðum

Hann dreymdi um að verða bóndi og fór í Bændaskólann á Hvanneyri. Þegar hann var búinn að vera þar í eitt ár var uppgangurinn í loðdýraræktinni búinn og áætlanir sem hann hafði gert brostnar . Árin 1989-1991 bjó hann á Egilsstöðum, starfaði hjá Trésmiðju Fljótsdalshéraðs og rak snókerstofu í kjallara Tjarnarbrautar 21, þar sem Héraðsprent var lengst af til húsa.

„Á Austurlandi var rosalega fín snókermenning á árunum 1985-1990. Það voru stofur á nokkrum stöðum og haldin mót,“ rifjar hann upp.

Eftir veruna á Egilsstöðum flutti hann á Höfn og þaðan til Reykjavíkur þar sem hann starfaði sem lásasmiður. „Ég opnaði peningaskápa, íbúðir og bíla. Það var svakalega skemmtilegur tími.“

Um miðjan níunda áratuginn réðist Pálmi til Össurar og starfaði hjá fyrirtækinu í alls átján ár. Árið 2012 stofnaði hann Geisla hönnunarhús, þar sem hann hannaði og framleiddi módel leikföng, gjafavörur og minjagripi ásamt því að bjóða einstaklingum og fyrirtækjum upp á skurðarþjónustu og hönnunarráðgjöf. Framleiðsla Geisla er í dag í bílskúrnum í Gautavík og er send til verslana víðs vegar um landið.

Kindur, hænur, plöntur, fiskar í fjárhúsunum

Pálma dreymdi hins vegar um aðfara aftur í búskapinn og Oddný hefur mikið með bændum í að auka verðmæti afurða þeirra, sem og við markaðssetningu á lífrænum afurðum hérlendis. Þau höfðu hugmyndir um tilraunir með sjálfbærni og hófust handa við að leita að jörð sem þau gætu komið sér fyrir á. Leitin stóð í nokkur ár en að lokum varð Gautavík fyrir valinu.

Þar stefna þau af því að stunda sjálfsþurftarbúskap og selja það sem umfram er beint frá býli. Þau keyptu 30 lömb úr Öræfum í haust og eru komin með átta landnámshænur. Næsta skref er að hefja ræktun bæði grænmetis og fiska.

„Við ætlum ekki að byggja risa gróðurhús og leysa öll heimsins vandamál en okkur langar til að vinna að rannsóknum í sjálfbærni. Ef við getum gert okkur sjálfbær, framleitt okkar eigin fisk, kjöt, grænmeti og ávexti, er mögulega hægt að nota okkar módel annars staðar.

Við notum bara eina kró af átta í fjárhúsunum, en í þeim er haughús með þriggja metra lofthæð. Ég ætla að athuga með að breyta hluta fjárhúsanna í gróðurhús og þekja botninn í tveimur garðanna með tjarnardúk til að geta ræktað þar fiska,“ útskýrir hann.

Hönnunin byggir á hringrás. Hægt er að nota vatnið frá fiskunum fyrir plönturnar því í úrgangi fiskanna eru næringarefni fyrir plönturnar. Þær hreinsa síðan vatnið fyrir fiskana. Pálmi bendir á að hægt sé að taka bárujárnsþakið af húsunum og setja í staðinn glært hvolfþak sem hleypi í gegnum sig ljósi og dreifi betur raka. Þá nýtist hlaðan sem íþróttahús fyrir fjölskylduna.

Fjárfestar skapa pressu

Pálmi útskýrir að áhuginn á sjálfbærninni komi út frá hugsuninni um framtíðina sem bíður næstu kynslóða en ekki viðskiptahagsmunum. „Við göngum svo ofboðslega á allar auðlindir og nær engar þeirra eru sjálfbærar. Það er mikið talað um sjálfbærni á Íslandi en það gerist lítið, hér er til dæmis ekkert rannsóknasetur í sjálfbærni. Við viljum verða sérfræðingar í sjálfbærri hugsun.

Við höfum engan áhuga á að fá fjárfesta að vinnunni með okkur. Þá myndast pressa um að skila arðsemi innan ákveðins tíma. Við erum að reyna að búa til aðferðafræði sem nýst getur öðrum. Við munum skrifa um niðurstöður okkar og hafa þær aðgengilegar þannig þær nýtist öðrum.

Hampurinn mest spennandi hráefni sem ég hef séð

Hluti af sjálfbærnihugmyndunum í Gautavík er að framleiða rafmagn á jörðinni. Þá hefur hann mikinn áhuga á að rækta þar iðnaðarhamp, sem meðal annars gæti nýst í vörur Geisla.

„Ég er hönnuður með 35 ára reynslu og hampurinn er langmest spennandi hráefni sem ég hef séð. Hampurinn er betri en ál og stál, það er hægt að nota hann í nánast hvað sem er, til dæmis bíla, málningu, tannkrem, sápur, fatnað, klæðningar og fleira. Það er hægt að gera úr honum steypu sem þolir allt að 1200 gráðu hita. Hampurinn er einnig fullkomlega lífrænn og skilar sér alltaf aftur í moldina.“

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar hérlendis með ræktun iðnaðarhamps. Pálmi tók sjálfur þátt í einni slíkri með nokkrum vinum sínum sumarið 2013 þegar þeir gróðursettu í akur á Rangársvæðinu. Sumarið var hins vegar kalt og plönturnar uxu ekki sem skyldi. Pálmi segir þá hafa lært margt af tilrauninni en ekki hafi gefist svigrúm til að endurtaka hana.

Næsta sumar ætlar hann hins vegar að halda áfram ræktun, bæði inni sem úti. „Það þarf að sjá hvaða yrki hentar best við íslenskar aðstæður. Ég ætla að hafa þrjú afbrigði úti og önnur þrjú inni þar sem ég get stýrt lýsingu og áburðargjöf. Plantan á að geta náð fullri stærð á þremur mánuðum utanhúss en ég vil meina að hægt sé að rækta hana á sex vikum innanhúss með því að stýra umhverfinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.