Viljum sýna framleiðendum þátta hve verðmætt efnið getur verið

Austfirskir frumkvöðlar standa að baki vefsetrinu Pardus.is sem er hið fyrsta sinnar tegundar hérlendis. Þar geta framleiðendur efnis, svo sem hlaðvarpa, selt áskrift að framleiðslu sinni í íslenskum krónum.

„Ég fékk beiðni frá stjórnendum hlaðvarps um að hjálpa þeim við að setja upp áskrift. Þá rakst ég á veggi, því ég fann ekkert sem hentaði þeim. Þá hugsaði ég með mér að ég myndi bara búa til svæði sem leysti málið,“ segir Egilsstaðabúinn Auðun Bragi Kjartansson, stofnandi Pardus.is.

Vefurinn Pardus.is fór í loftið fyrir um mánuði en snjallforritið er væntanlegt innan skamms. Hugmyndin er að vera vettvangur fyrir þá sem framleiða efni, svo sem hlaðvörp, sjónvarpsþætti eða kennslumyndbönd, til að geta haft efni sitt á læstu svæði og selt þar áskrift að því í íslenskum krónum og fengið greitt í þeim gjaldmiðli.

Á sínu svæði geta framleiðendurnir ekki bara verið með þættina sína, heldur deilt myndum, skrifað fréttir og skapað umræður meðal áskrifenda sinna og þannig búið til samfélag í kringum efnið.

„Við viljum fá þá sem búa til svona efni til að gera sér grein fyrir hve mikil verðmæti eru í þeim og geta skapað sér reglulegar tekjur. Þessi form eru svo ný hérlendis að ég held að fólk átti sig ekki á möguleikunum eða hve miklar tekjur það getur búið sér til með þeim en erlendis er þetta vel þekkt og um það verið ritaðar margar greinar,“ segir Auðun Bragi.

Austfirskir þættir

Í gegnum Pardus geta áskrifendur haldið utan um og verið með aðgang að einum þætti eða fleirum. Tveir hlaðvarpsþættir eru komnir í áskrift á Pardus.is. Annars vegar Morðcastið, sem haldið er úti af systrunum Bylgju og Unni Borgþórsdætrum á Egilsstöðum, hins vegar Hæhæ! með Helga Jean Claessen og Hjálmari Erni Jóhannessyni. Í tilfelli Morðcastsins eru á svæði þess þættir sem hvergi birtast annars staðar.

Af öðrum þáttum sem eru á Pardus.is má nefna Piparinn þar sem Héraðsbúinn Vigdís Diljá Óskarsdóttir fjallar um bandarísku sjónvarpsþættina The Bachelor. Hennar þættir eru enn sem komið er öllum opnir. „Það er öllum velkomið að hafa samband sem eru að framleiða efni,“ segir Auðun Bragi.

Betra umhverfi fyrir þáttastjórnendur

Auðun Bragi segir eitt af aðalatriðum Pardusar að bjóða framleiðendum efnisins upp á betri þjónustu og stjórn á sínu svæði. „Við erum enn að þróa svæðið og erum að sérsníða lausnir fyrir framleiðendur. Við erum ekki með jafn þrönga ramma og sambærilegar þjónustur,“ bendir hann á. Hann útilokar ekki að Pardus færi síðar meir kvíarnar út fyrir landsteinana. „Það er klárlega opið.“

Hann er ánægður með fyrstu viðtökur við þjónustu Parduss. „Þetta hefur farið fáránlega vel af stað. Við fengum strax ábendingar um hvað mætti betur fara og það hefur verið lagað. Sérstaklega höfum við fengið ábendingar um hvað umsjónarkerfi þáttastjórnenda er gott. Öll þróunarvinna tekur tíma en við erum að gera góðan spilara í appið og hlökkum til að sýna það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.