„Viljum fá allt samfélagið með“

Stofnfundur Hinsegin Austurlands, félags hinsegin fólks á Austurlandi, fjölskyldna og velunnara, verður haldinn á morgun, laugardag. Hvatinn að stofnuninni er að styðja við hinsegin fólk á svæðinu og gera það sýnilegra í austfirsku samfélagi.

„Ferlið þegar þú ert að uppgötva eigin kynhneigð og kynvitund er einmanalegt og fólk þarf þar stuðning og ráðgjöf.

Það er ekki það sama að veita hana persónulega, eða í gegnum netið eða síma. Yngri einstaklingar hafa ekki endilega tækifæri til að nýta þá aðstoð sem býðst í Reykjavík eða á Akureyri.

Við viljum líka vera sýnilegri og taka þátt í samfélaginu. Þetta eru helstu ástæðurnar fyrir að við viljum hafa hinsegin félag á Austurlandi,“ segir Jódís Skúladóttir, ein þeirra sem hafa haft veg og vanda að undirbúningi félagsins.

Jódís kynnti hugmyndina um félagið fyrst í grein sem birtist hér á Austurfrétt í nóvember. Hún segir viðtökur við greininni hafa verið frábærar og eins hafi allir sem leitað hafi verið til í aðdraganda stofnunarinnar, jafnt fyrirtæki og stofnanir, verið félaginu jákvætt.

Þá hafi fjölmargir einstaklingar sett sig í samband við undirbúningshópinn. „Það hefur komið fólk að máli við okkur sem vill fá að leggja málefninu lið með að vera með, bæði hinsegin fólk og einstaklingar sem vilja sjá betra samfélag. Við höfum ekki mætt neinu öðru en jákvæðni og bjartsýni.“

Jódís segir þetta allt í takt við þá stefnu sem undirbúningshópurinn hafi markað. „Þetta er í takt við það sem við viljum. Við viljum fá allt samfélagið með. Þetta er ekki lokað félag okkar sem eru hinsegin, félagið, viðburðir á þess vegum og fræðsla er öllum opið.

Hver og einn hinsegin einstaklingur er hluti af fjölskyldu, vinnustað, félagslegum tengslum og öðru í samfélagi. Þess vegna viljum við hafa alla með,“ segir Jódís.

Stofnfundurinn verður í Valaskjálf á Egilsstöðum og hefst klukkan 15:00 á morgun. Þar tala meðal annars fulltrúar frá Samtökunum 78, og frá bæði intersex-- og transfólki. Síðar um kvöldið verður dragkeppni þar sem Haffi Haff og Páll Óskar verða meðal dómara en Páll Óskar spilar síðan á balli þar í kjölfarið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.