Vildi upplifa aftur daginn sem hún sá manninn sinn fyrst

„Á fyrirlestrinum fjalla ég um mikilvægi svefns fyrir andlega og líkamlega heilsu með sérstökum áherslum á svefn barna og unglinga,“ segir Norðfirðingurinn Erla Björnsdóttir um fyrirlesturinn Betri svefn – grunnstoð heilsu, sem hún flytur á Reyðarfirði næstkomandi þriðjudagskvöld.


Erla er sálfræðingur og hefur einnig lokið doktorsprófi í líf-og læknavísindum og hefur hún sérhæft sig í rannsóknum og meðferð svefnvanda. Erla vinnur við rannsóknir á svefni við Háskóla Íslands og rekur Sálfræðiráðgjöfina þar sem hún aðstoðar fólk sem glímir við svefnvanda. Hún gaf einnig nýverið út bókina Svefn. 

Eins og segir í inngangi mun fyrirlesturinn fjalla um svefns fyrir andlega og líkamlega heilsu með sérstökum áherslum á svefn barna og unglinga.

Fyrirlesturinn verður í samkomusal Grunnskólans á Reyðarfirði næstkomandi þriðjdagskvöld. Fyrirlesturinn er öllum opinn en það eru foreldrafélag Grunnskóla Reyðarfjarðar og foreldrafélag leikskólans Lyngholts sem að honum standa.

Fullt nafn: Erla Björnsdóttir.

Aldur: 35.

Starf: Sálfræðingur, vísindamaður, frumkvöðull og fyrirtækjaeigandi.

Maki: Hálfdan Steinþórsson.

Börn: Fjórir dásamlegir drengir.

Besta bók sem þú hefur lesið? Ég hef lesið margar góðar bækur en ferskust í minni mínu þessa dagana er bók sem var lesin í bókaklúbbnum mínum um daginn og heitir Næturgalinn, stórkostleg bók sem spilar á allan tilfinningaskalann.

Hver er þinn helsti kostur? Kjarkur.

Hver er þinn helsti ókostur? Andlitsblinda sem lýsir sér eins og að vera ómannglöggur í þriðja veldi, hef margoft lent í stórkostlegum vandræðum og almennum vandræðilegheitum út af þessu.

Ef þú gætir endurupplifað einn dag í lífi þínu? Daginn sem ég hitti manninn minn. Mómentið þegar ég sá hann fyrst var alveg magnað og ég vissi þá og þegar að minn heimur yrði aldrei eins.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Mjóifjörður.

Hvað er í töskunni þinni? Tölva, sími, dagbókin mín, alltof margir lyklar, gloss og súkkulaði.

Topp þrjú á þínum „Bucket list“? Fara til Víetnam (sem ég mun stroka út af listanum í næstu viku þegar sá draumur rætist), eignast íbúð í litlu þorpi á Ítalíu og gefa út alþjóðlega metsölubók.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Parmesan, chilli og hvítlauk.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Fyrirmyndir mínar eru margar en foreldrar mínireru efst á blaði.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Sortera sokka – ég hef aldrei skilið hvað verður alltaf um annan sokkinn í hverju sokkapari og er enn að leita að leynigatinu heima þar sem allir stöku sokkarnir eru.

Draumastaður í heiminum? Hólatorg 6.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítil? Læknir, leikari eða lögfræðingur. Var hrifin af öllu sem byrjaði á L.

Hver eru þín helstu áhugamál? Að verja tíma með strákunum mínum fimm, ferðast um heiminn, skapa eitthvað nýtt og stunda jóga.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Ég bý við þann lúxus að engir tveir dagar eru eins og mér finnst fjölbreytileikinn afar mikilvægur. Dagurinn í dag hófst til dæmis á morgunstund og spjalli yfir kaffibolla heima með strákunum mínum, svo fór ég á áhugaverða morgunráðstefnu í Hörpu um hagnýtingu doktorsnáms, restin af deginum fer í alls kyns fundi um allan bæ, svo hittist matarklúbburinn í einn drykk eftir vinnu og dagurinn endar svo eins og hann byrjaði, á gæðastund með strákunum.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Föstudagar, þá ríkir svo mikil orka og gleði.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Mahatma Gahndi – spjall við hann um lífið og tilveruna væri magnað.

Af hverju er góður svefn mikilvægur? Svefn er forsenda lífs og ein mikilvægasta grunnstoð heilsu og vellíðunar, ekki síst í því hraða samfélagi sem við lifum í þar sem við erum umkringd áreitum frá því að við vöknum á morgnana og þar til við leggjumst á koddan á kvöldin. Í svefni á sér stað mikilvæg endurnýjun á frumum líkamans, losun á eiturefnum, úrvinnsla áreita og fleira. Ef við svindlum á svefninum munum við þurfa að borga skattinn af því einhvers staðar, kannski í verri einbeitingu, aukinni vanlíðan eða lakari líkamlegri heilsu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar