„Vil stundum meina að ég hafi verið sauðkind í fyrra lífi“

„Þetta er bara mitt líf. Ég er á mínum stað þegar ég er úti í fjárhúsum að brasa við búskapinn,“ segir Guðný Harðardóttir, sauðfjárbóndi á Gilsárstekk í Breiðdal. Hún var í opnuviðtali síðasta Austurglugga.Guðný ólst upp á Refsmýri í Fellum og hefur því alla tíð verið í kringum sauðfjárrækt. „Ég fékk að taka mikinn þátt í bústörfunum og vil stundum meina að ég hafi verið sauðkind í fyrra lífi. Sauðfjárræktin er mér í blóð borin en forfeður mínir í báðar ættir voru sauðfjárbændur. Kannski er þetta bara genatískt.“

Guðný segist alla tíð hafa vitað að hún vildi læra eitthvað sem tengdist skepnum og hún er með B.S próf í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Guðný segir það ekki vinnandi veg fyrir bændur að lifa af búskap einum saman. Hún er einn af eigendum Breiðdalsbita og maðurinn hennar Valur Þeyr Arnarson er málari. „Búskapurinn er bara hobbí, það er ekki hægt að lifa á honum,“ segir Guðný, en það er í honum sem hún nýtur sín allra best. Hún segir sér það einnig mikilvægt að rækta líkama og sál með útivist. 

„Útivistin tengist búskapnum auðvitað mikið og þetta sumar er búið að vera dásamlegt. Þetta með að rækta hugann gerist svo sjálfkrafa í fjárhúsunum. Ég fer í ákveðið hugleiðsluástand kringum féð, við gjafir og aðra vinnu. Ég á margar minningar frá því ég var krakki þar sem ég var annað hvort í fjárhúsinu eða úti bara ein. Ég er alin upp við að trúa á álfa, eða öllu heldur landvætti. Það að virða náttúruna og það sem við sjáum ekki, það er miklu meira spunnið í náttúrna og landið okkar en við vitum. Ég man eftir mörgum skiptum þar sem ég sat við hólinn heima á Refsmýri og náði jarðtengingu, sem auðvitað er bara hugleiðsla. Ég hef því alltaf átt auðvelt með að ná jarðtengingu nema á unglingsárunum,“ segir Guðný og skellihlær. 

Vill HAM inn í alla grunnskóla
Það er alltaf stutt í hláturinn hjá Guðnýju og hún er ekki í vandræðum að greina frá sinni lífssýn; „Lífsgleðin skipir öllu máli, hún kemur manni langt. Það er þó eitthvað sem ég hef þurft að læra og tileinka mér í gegnum lífið, að elska mig eins og ég er. Ég held að það sé mikilvægasti lærdómurinn og einnig það mikilvægasta sem við getum kennt börnunum okkar. Þunglyndi hefur alltaf fylgt mér aðeins. Ég hef farið í gegnum hugræna atferlismeðferð (HAM) og það finnst mér ætti að vera skylda að kenna í öllum grunnskólum – hvernig talar þú til þín og hvað ertu að segja við sjálfan þig? Lífsleikni er komin inn í grunnskólana og HAM er ekkert annað en lífsleikni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar