Viðburðir víða yfir sjómannadagshelgina

Dagskrá helgarinnar litast af því að sjómannadagur er á sunnudag. Fyrir utan hefðbundnar skemmtanir á borð við siglingar og sjómannaleiki er tækifærið á nokkrum stöðum nýtt til stærra viðburðahalds. Austurfrétt lítur hér yfir helstu viðburði helgarinnar.

Neskaupstaður


Þannig er staðan í Neskaupstað þar sem tónleikarnir Sjórokk verða haldnir í Egilsbúð á laugardagskvöld. Tónleikarnir eru um leið minningartónleikar um Ingvar Lundberg, fyrrum hljómborðsleikara Sú Ellen, sem lést síðasta sumar.

Hans gömlu félagar koma fram á tónleikunum ásamt Dúkkulísunum, Cell7, Guðmundi Höskuldssyni og hljómsveit með Þóri Baldurssyni, Pjetri St. Arasyni og Guðmundi R. Um morguninn verður farið í hópsiglingu norðfirska flotans klukkan tíu um morguninn og klukkan tvö er kappróður. Á sunnudag verða leikir við sundlaugina frá 15:30, kaffisala björgunarsveitarinnar Gerpis frá 14:30-18:00 að lokinni messu í Norðfjarðarkirkju.

Eskifjörður


Eskifirðingar byrjuðu hátíðahöldin í gær þegar hægt var að prófa báta hjá Siglingaklúbbi Austurlands og Björgunarsveitinni Brimrúnu. Þar verður hópsigling klukkan 13:00 á morgun með Jóni Kjartanssyni og Guðrúnu Þorkelsdóttur en eftir það leikir og þrautir á Mjóeyri. Milli klukkan 17 og 20 verða tónleikar á Eskitúninu þar sem fram koma KK, Gunni Óla, Páll Óskar og fleiri auk garðstónleika við hlið grunnskólans. Dansleikur er í Valhöll um kvöldið.

Á sunnudag verður messa í Eskifjarðarkirkju klukkan 11 en síðan athöfn við minnisvarðan um drukknaða sjómenn á hádegi. Sjómaður verður heiðraður og Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri flytur hátíðarræðu. Eftir hádegi er fjölskyldudagskrá á Eskjutúni með Sveppa og Villa en síðan kaffi í Valhöll á vegum slysavarnafélagsins.

Fáskrúðsfjörður


Á Fáskrúðsfirði verður lagt í skemmtisiglingu frá frystihúsbryggjunni klukkan tíu í fyrramálið. Að henni lokinni verður stutt athöfn inni við smábátahöfnina þar sem Sr. Jóna Kristín Þorvalsdóttir blessar björgunarbátinn Hafdísi. Báturinn verður síðan til sýnis. Á sunnudag klukkan 14 er messa í kirkjunni, minningarafhöfn við minnisvarðann um þá sem hafa látist við störf á hafi og síðan sjómannadagskaffi slysavarnadeildinni.

Vopnafjörður


Á Vopnafirði verður farið í siglingu klukkan 13:00 á morgun en síðan er skemmtidagskrá við höfnina á vegum björgunarsveitarinnar Vopna og þar á eftir samvera við fiskhúsið með humarsúpusmakki frá Brimi og fleiru. Sjómannadagsmessa er á sunnudag og eftir hana gengið að minnisvarðanum um drukknaða sjómenn. Hátíðarkaffi er síðan í Miklagarði í umsjón slysavarnadeildarinnar og félagar úr henni heiðraðir.

Borgarfjörður eystra


Á Borgarfirði er kótelettukvöld og sing-a-long í Fjarðarborg. Aðaldagskráin er þó á sunnudag og hefst klukkan 11 á sjómannadagsmessu úti í höfn. Eftir hana er boðið upp á siglingu um Borgarfjörðinn. Við komuna til baka verður belgjaslagur og stemming á bryggjunni en síðan sjómannadagskaffi í Fjarðarborg.

Djúpivogur


Á Djúpavogi verður klukkan 21:00 á morgun myndasýning í Löngubúð. Þar verða bæði ljós- og hreyfimyndir frá fyrri sjómannadögum á Djúpavogi. Myndasýningin verður í gangi á veitingastaðnum Vkið Voginn á sunnudag. Þann dag verður guðsþjónusta við Faktorshúsið klukkan ellefu, dorgveiðikeppni á hádegi og grillveisla. Ef veður leyfir verður siglt um svæðið klukkan 14.

Seyðisfjörður


Seyðfirðingar bjóða í siglingu með Gullveri í fyrramálið klukkan 11. Klukkan eitt verða viðburðir á og við bryggjuna svo sem dorgveiðikeppni og kappróður. Sjómannadagsmessan þar er klukkan 20:00 á sunnudag.

Tekið skal fram að upptalningin er ekki tæmandi á þeim viðburðum sem auglýstir hafa verið heldur samantekt á því helsta. Til viðbótar má nefna dansleiki og tilboð á veitinga- og skemmtistöðum sem víða standa fyrir sérstökum viðburðum. Ítarlegri dagskrá er að heimasíðum Múlaþings, Fjarðabyggðar og Vopnafjarðarhrepps.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.