„Við konurnar erum ekki hissa á þessum tölum“

Um fimmtíu manns tóku þátt í göngu Soroptimistaklúbbs Austurlands gegn kynbundnu ofbeldi á Seyðisfirði í gær. Formaður klúbbsins fagnaði því að konur væru farnar að safna kjarki til að segja frá ofbeldi sem þær verða fyrir.

25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og er þetta í annað skiptið sem klúbburinn stendur fyrir göngu til að vekja athygli á málstaðnum.

Appelsínugulur klæðnaður var áberandi í göngunni en appelsínugulur er litur dagsins og á að tákna bjartari framtíð án ofbeldis. Slagorð dagsins í ár er: „Málum heiminn appelsínugulan, heyrum og gefum gaum að Me too”.

Þorbjörg Garðardóttir, formaður klúbbsins, ávarpaði göngufólk áður en lagt var af stað frá Seyðisfjarðarkirkju. Hún notaði tækifærið til að benda á að kynbundið ofbeldi viðgengist enn of víða og vísaði í nýlegar íslenskar tölur að um tæpur helmingur kvenna hafi mátt þola einhvers konar ofbeldi. „Ég veit ekki hvort karlarnir eru hissa á þessum tölum en við konurnar erum það ekki,“ sagði Þorbjörg.

„Sektartilfinning, skömm og misbrestir í réttarfarinu hafa fram að þessu hindrað konur í að segja frá þessum glæpum, flestir koma ekki fram í dagsljósið.

Réttarfarið hefur einnig verið þannig að þær sem leita réttar síns hafa stundum séð eftir því, telja að það hafi gert illt verra. Konur ættu hins vegar að finna sig öruggar í því að segja frá og fordæma þá sem brjóta á rétti þeirra.“

Hún kvaðst þó bera þá von í brjósti að hlutirnir væru að breytast. „Konur eru farnar að tala sig saman, safna kjarki og segja frá. Við látum þetta ekki viðgangast lengur. Að verða fyrir kynferðislegum athugasemdum, klípum og káfi er óþolandi hvað þá þegar enn alvarlegri hlutir gerast og konur hafa nú sammælst um að segja frá og stoppa þetta.“

Hún sagði að efla þyrfti forvarnir. „Við þurfum að vanda okkur sérstaklega við uppeldi drengjanna okkar. Það þarf að breyta lögum og regluverki til að berjast við rótgróið kynjamisrétti sem oft orsakast af gamaldags viðhorfi og tengdum félagslegum normum. Við viljum ekki menningu þar sem valdi er misbeitt í þeim tilgangi að niðurlægja og brjóta niður sjálfstraust kvenna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.