Orkumálinn 2024

„Við munum koma með alveg nýtt tvist á búningana“

„Lokamarkmið er að sjálfsöðgu að njóta þess að fá þetta tækifæri og gera okkar allra besta í Höllinni,“ segir Eskfirðingurinn Eiríkur Þór Hafdal, en hann er meðlimur Fókus-hópsins sem keppir til úrslita í Júróvisjón annað kvöld.


„Við höfum verið að skerpa sviðsframkomuna og samhæfa okkur aðeins frá síðustu keppni. Við munum svo koma með alveg nýtt tvist á búningana annað kvöld, en í undankeppninni vorum við frekar látlaus. Nú erum við komin með búningahönnuðinn Ingu Birnu Friðjónsdóttur og höfum einnig fengið til liðs við okkur Selmu Ragnarsdóttur klæðskera og kjólameistara, sem hefur meðal annars unnið mikið með Páli Óskari. Einnig erum við með stílistann Sigrúnu Ástu Jörgensen sem er að setja saman heildarútlitið, þannig að þetta verður rosalega flott á laugardaginn.“

Finna fyrir miklum meðbyr
Hvernig metur Eiríkur stöðu Fókus-hópsins í keppninni? „Aðal áherslan var lögð á að komast í úrslit og það tókst. Við tókum meðvitaða ákvörðun um að njóta þess að vera á þessum stað og syngja á þessu sviði í undanúrslitum og vera við sjálf. Það tókst svona vel og ætlum við að gera nákvæmlega það sama annað kvöld.

Við höfum einnig fundið fyrir gríðarlega miklum meðbyr og fáum endalausar kveðjur og heillaóskir allstaðar að af landinu og meira að segja frá Júróvisjónáhugafólki erlendis. Lagið okkar hefur fallegan boðskap, „flottan húkk“ og er svona „Júróvisjónvænt“. Auk þessa skilar hópurinn laginu vel og erum með þéttan raddpakka – en raddútsetningarnar eru frekar flóknar og mikið lagt í þær hjá snillingnum Ingvari Alfreðssyni.“

Aðalmálið að lifa og njóta
Eiríkur Þór segir lokamarkmiðið vera að njóta augnabliksins annað kvöld. „Ef ég á að tala fyrir sjálfan mig þá var það einhver óútskýrð vellíðan sem fór um mann um leið og stigið var á sviðið á undanúrslitakvöldinu og þessar þrjár mínutur voru ansi fljótar að líða. Þegar síðasti tónninn var búinn og salurinn klappaði, þá helltist yfir mig alda tilfinninga sem er varla hægt að útskýra. Ótrúlega skemmtilegt augnablik sem verður líklega ennþá stærra annað kvöld. Svo er það bara að lifa og njóta, það er aðal málið.“

Hvetur áhorfendur til að kjósa
Eiríkur Þór vill hvetja fólk til þess að kjósa. „Fólk verður svo bara að kjósa eftir sinni sannfæringu og velja besta lagið og bestu flytjendurnar sem það treystir til að fara með út til Portúgal – það lag sem það telur líklegast að Evrópubúum líki við og komi okkur upp úr undankeppninni úti, sem hefur ekki gerst síðastliðin þrjú ár.“

Ljósmynd: Mummi Lú. 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.