„Við erum öll í skýjunum“

„Þetta gekk bara frábærlega og við erum öll í skýjunum,“ segir Kristinn Þór Jónasson, sem fór fyrir Útsæðinu, bæjarhátíðinni á Eskifirði sem fram fór um helgina.


„Það var bókstaflega góð mæting á alla viðburði, veðrið var ásættanlegt og mjög gott í gær og við bara gætum ekki verið ánægðari,“ segir Kristinn Þór.

Í frétt um viðburðinn fyrir helgi var greint frá því að boðið yrði upp á tíu heilgrillaða lambaskrokka á kvöldvökunni á Eskjutúninu á laugardagskvöldið. „Við afgreiddum 550 skammta af lambakjöti og það kláraðist eiginlega akkúrat. Einnig vorum við með 1000 pylsur og af þeim fóru 600, þannig að enginn fór svangur heim.“

Á sunnudaginn var myndin Leiftur frá liðinni tíð sýnd í Valhöll, en um var að ræða svipmyndir úr safni Þórarins Hávarðssonar. Myndin var 70 mínútur og sýnd tvisvar yfir daginn.

„Sýningin var mjög vel sótt, eða um 150 manns í heildina. Hún var alveg frábær og ég held að það sé ljóst að sambærileg sýning verður að ári, en Tóti á mörghundruð klukkutíma af efni og því úr nægu að moða,“ segir Kristinn Þór, sem er staðráðinn í því að Útsæðið sé komið til að vera; „Við förum ekki að bakka út úr þessu. Þetta er með síðustu viðburðum sumarsins, hálfgerð sumarlok.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar