„Við erum bara heppin með hvort annað“

„Hún Hanna mín hefur alltaf staðið við bakið á mér,“ segir Helgi Seljan, fyrrverandi alþingismaður, þegar þau hjónin stilla sér upp fyrir myndatöku hjá blaðamanni Austurgluggans í byrjun maí, en hér kemur stutt brot úr því viðtali.


Það dylst engum sá kærleikur sem ríkir milli þeirra hjóna sem hafa gengið veginn saman í 64 ár, en aðeins skilja fjórir dagar þau að í aldri. „Hún Hanna mín er eldri en ég, heilum þremur dögum,“ segir Helgi og lítur brosandi á Hönnu, en bæði eru þau fædd árið 1934, hún 11. janúar en hann 15. janúar. „Já, það er undarlegt að þetta hafi hist svona á, en þetta var líklega allt fyrirfram ákveðið,“ segir Hanna.

Njóta efri áranna
Helgi og Hanna hættu að vinna sama árið. „Þá fór ég að skrifa og Hanna að vinna í sínum óskaverkefnum, bæði að skera út og mála. Er þetta ekki fallegt hjá henni,“ segir Helgi og bendir á mynd eftir Hönnu sem hangir á veggnum í borðstofunni. „Þetta var nú leiðandi spurning,“ segir Hanna og hlær, en bætir því við að myndin sé reyndar sú eina sem hún hefur málað. „Ég fór á fullt í útskurðinn, við vorum með kennara einn vetur og svo var ég með góðum mönnum sem hjálpuðu mér,“ segir Hanna. „Hún kallar þá karlana sína og þeir eru miklu betri en ég sem ekkert kunni,“ segir Helgi og hlær.

Helgi hellti sér á kaf í starfsemi eldriborgara, var varaformaður félagsins um tíma og sá að miklu um flestar samkomur og skemmtanir á vegum þess. Hanna hittir reglulega bekkjarsystur sínar úr húsmæðraskólanum auk þess sem hún er virkur meðlimur í Félagi austfirskra kvenna. Helgi hitti einnig reglulega félaga sína úr Kennaraskólanum. „Við vorum átta þegar mest lét, en þeir eru allir farnir, maður er eiginlega farinn að skammast sín fyrir að tóra.“

„Það er þröngt á þingi ef maður nær öllu fólkinu saman“
Það er gestkvæmt á Kleppsveginum og ekki líður sá dagur án þess að afkomendurnir líti við. „Við hræddumst aldrei að hætta að vinna, okkur hefur aldrei leiðst. Um leið og við hættum fluttu tvö barnabarnanna til okkar tvo vetur og afkomendurnir koma mikið til okkar,“ segir Helgi, en barnabörnin eru 14 og barnabarnabörnin einnig. „Það er allt annað að verða amma og afi, þá þarf maður ekki að hafa áhyggjur af þessu, foreldrarnir sjá um það. En að öllu gamni slepptu, þá höfum við lagt okkur fram við að sinna fólkinu okkar eins vel og við getum,“ segir Hanna.

„Það er þröngt á þingi ef maður nær öllu fólkinu saman. Við höfum boðið mikið hingað heim en fyrirhöfnin er öll Hönnu. Þetta er mikið afbragðsfólk og ekkert yfir því að kvarta, svona miðað við stofnfrumurnar,“ segir Helgi.

„Við sjáum ekki eftir neinu“
Hafa þau gert eitthvað sérstakt til þess að ræka sambandið sitt gegnum tíðina? „Við erum bara heppin með hvort annað, en það er ekki sjálfgefið og það vitum við mætavel,“ segir Hanna. „Já, við erum heppin og sjáum ekki eftir neinu, það er meira en margir geta sagt sem sjá eftir mörgu. Svona eftir á horft var þetta þó óþarfa fjarvera þarna hjá okkur nokkuð mörg ár. En við höfum ekkert ræktað þetta markvisst, þetta bara er svona. Ég meira að segja gleymdi að kyssa hana rakkossinn í gær,“ segir Helgi og hlær og útskýrir þann gamla sið að karlar hafi alltaf kysst konur sínar þegar þeir voru nýrakaðir og fínir. „Já, ég missti af honum í gær,“ segir Hanna og hlær.

Auðveldara en halda mætti að leiðrétta kjör eldri borgara
Ekki var hægt að sleppa þeim Helga og Hönnu án þess að spyrja þau út í skoðun þeirra á kjörum eldri borgara. „Það er of mikið alhæft því það er geysilega stór hópur eldri borgara sem hefur það mjög gott. Aðrir hafa það vissulega virkilega slæmt, en ég tel það miklu minna mál en menn halda að leiðrétta kjör þeirra sem hafa það skítt,“ segir Helgi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.