„Við ætlum að tala um það sem skiptir máli – ekki varalit og augnskugga”

Það verður sterkkrydduð og kjarnyrt kvennadagskrá í Bókakaffi í Fellabæ í kvöld í tilefni kvennréttindadagsins 19. júní. Sjö konur munu stíga á stokk og hefst dagskráin stundvíslega klukkan 20:30.



Gréta Sigurjónsdóttir, tónlistarkona og eigandi Bókakaffis, segir Steinunni Ásmundsdóttur, hafa fengið hugmyndina af uppákomu kvöldsins, en þær munu báðar koma fram í dagskrá kvöldsins.

„Já, segja má að Steinunn hafi fengið hugmyndina þegar við vorum að ræða saman um daginn. Þá vorum við reyndar ekkert endilega að hugsa um kvennadagskrá, en 19. júní nálgaðist og því kjörið að gera eitthvað þann dag,” segir Gréta, en auk þeirra tveggja munu þær Kristín Atladóttir, Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Kristbjörg Mekkín Helgadóttir og Ása Þorsteinsdóttir koma fram, ýmist með upplestur, frásagnir eða tónlist.

„Við vildum að dagskráin yrði kröftug, við ætlum að tala um það sem skiptir máli, ekki varalit og augnskugga. Þarna verða sjö konur samankomnar til þess að taka sér pláss í lífinu og hvetjum við aðrar konur að gera slíkt hið sama," segir Gréta.

Aðspurð hvort 19. júní skipti Grétu sjálfa miku máli eða hvort hún geri alltaf eitthvað sérstakt í tilefni hans segir hún svo vera. „Þessi dagur er stór og skiptir mig vissulega máli. Hann er kannski ekki endilega réttindabaráttudagur í dag eins og hann var hér áður fyrr, heldur má frekar segja að við nýtum hann til þess að hugsa hvert konur eru komnar í dag, hvað við erum að gera og einnig það sem við erum ekki að gera,” segir Gréta.

„Við í Dúkkulísunum honum gert ýmislegt á þessum degi gegnum tíðina, gáfum til dæmis út okkar fyrstu plötu, höfum verið með hátíðardagskrá í Viðey og spilað á ýmsum stöðum,” segir Gréta sem hvetur alla, konur og karla, til þess að mæta og sýna samstöðu á Bókakaffi í kvöld. 

 

Bókakaffi 19juni kröftugar og kjaftforar 1200

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.