Vertinn á Sumarlínu vill selja en ekki hverjum sem er

„Sumarlína hefur verið í sölu um tveggja ára skeið eða svo og það hafa komið áhugasamir aðilar en mér er bara ekki alveg sama hver það er eða hvers lags starfsemi verður í húsinu í kjölfarið,“ segir Óðinn Magnason, eigandi og vert á veitinga- og kaffistaðnum Sumarlínu á Fáskrúðsfirði.

Sumarlína er veitingastaðurinn á Fáskrúðsfirði og orðinn nokkur stofnun í bæjarfélaginu eftir sextán ára farsælan rekstur. Rekstur sem Óðinn segir sjaldan hafa verið betri en yfir Covid-tímabilið þvert á reynslu margra annarra veitingahúsaeigenda á sama tímabili.

Óðinn og fjölskylda hefur staðið vaktina allan þann tíma en sökum þess hve erfitt hefur reynst að fá starfsfólk til starfa hafa þær vaktir verið langar og strangar um langt skeið. Í fyrsta sinn í sögu staðarins þurfti Óðinn að loka í desember síðastliðnum þegar ekki fannst afleysingafólk þegar fjölskyldan fór í stutt leyfi.

„Það er ekki laust við að það sé kominn smá þreyta í okkur og þess vegna vill ég fá inn nýtt fólk með ferskar hugmyndir og vinda inn í reksturinn. Ég vil þó að staðurinn haldi sínum sérkennum að mestu og þess vegna kæri ég mig ekki um að honum verði breytt eftir sölu í te- eða vöffluhús eða neitt slíkt. Óskandi væri að viðkomandi myndi til dæmis halda áfram úti veitingarekstrinum og ekki síður barþjónustu um kvöld og helgar og áfram bjóða upp á trúbadora og uppákomur þegar það hentar.“

Mynd: Rekstur Kaffi Sumarlínu hefur sjaldan gengið betur en síðustu árin. Mynd Óðinn Magnason.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.