Verkmenntaskólinn gerir athugasemdir við vinnubrögð RÚV

Forsvarsmenn Verkmenntaskóla Austurlands eru ósáttir við vinnubrögð RÚV vegna ákvörðunar um að láta endurtaka viðureign skólans við Menntaskólann á Ísafirði í spurningakeppninni Gettu betur vegna tæknilegra mistaka.

Liðin mættust á þriðjudagskvöld og hafði VA þá betur 21-19. Þegar Ísfirðingar fóru að hlusta á keppnina að útendingu lokinni kom í ljós að VA hafði fengið 17 sekúndum lengri tíma til að svara hraðaspurningum og á þeim tíma náð sér í þrjú dýrmæt stig.

Í gær sendi RÚV frá sér yfirlýsingu þar sem mistökin eru hörmuð en jafnframt greint frá því að eftir að hafa skoðað máli hafi niðurstaðan sú að endurtaka þyrfti keppnina. Samkvæmt reglum keppninnar eru engin ákvæði til að bregðast við atvikum sem þessu, að öðru leyti en því að dómarar hafi úrskurðarvald um hvað teljist fullgildi svör.

Úrslitum verði því ekki breytt eftir á. Í samtali við Vísi segir Kristjana Arnardóttir, spyrill keppninnar, að stefnan sé að ákvörðun dómara standi en ekki sé hægt að líta fram hjá tæknilegu máli sem þessu. Ekki hafi verið hægt að bregðast við því á staðnum. Hún segir stöðuna ömurlega og hafa skilning á stöðu Austfirðinga, sem töldu sig hafa tryggt sér sæti í sjónvarpshluta keppninnar í fyrsta sinn frá árinu 2002.

Ákvörðunin tekin án samráðs

Talsmenn VA liðsins hafa hins vegar mótmælt bæði ákvörðuninni sjálfri og ekki síður vinnubrögðum RÚV. Birgir Jónsson, verkefnastjóri við skólann sem hélt utan um liðið í keppninni, segir að í gærmorgun hafi verið hringt í einn liðsmann liðsins með þau tíðindin um að hún væri ógild og þyrfti að endurtaka. Nemandinn hafi óskað eftir að fá að ræða málin við stjórnendur skólans. Það hafi verið samþykkt og heitið að haft yrði samband síðar.

Áður en það hafi verið gert hafi RÚV sent frá sér yfirlýsingu um að keppnin yrði endurtekin. Birgir gagnrýnir að aldrei hafi farið neitt raunverulegt samráð við stjórnendur Verkmenntaskólans um hvernig bregðast ætti við stöðunni. „Þegar ég náði sambandi við forsvarsmenn RÚV varðandi málið seinni partinn þá virtist vera að þetta hefði verið ákveðið þar og þessari niðurstöðu þröngvað upp á okkur án alls samráðs,“ segir Birgir.

Samkvæmt reglum keppninnar starfar stýrihópur, skipaður fulltrúum framhaldsskólanna sem keppa og RÚV, sem hefur eftirlit með framkvæmd keppninnar og kemur saman ef þurfa þykir. Af hálfu VA hefur verið farið fram á frekari upplýsingar um hvernig ákvörðunin var tekin.

Ekki í standi til að keppa strax

Birgir segir jafnframt að af hálfu RÚV hafi verið þrýst á að keppnin færi fram sem fyrst. „Það var reynt að fá okkur til að keppa í dag. Okkar lið er ekki í standi til þess eftir rússíbana síðustu tveggja sólarhringa.“

Hann segir málið enn í skoðun hjá RÚV. „RÚV hefur eftir þetta séð sóma sinn í því að hlusta á sjónarmið okkar og er að skoða málið aftur. Að okkar mati væri sú leið farsælust að bæði lið kæmust áfram í 8-liða úrslit, þannig kæmi klúðrið varðandi framkvæmd keppninnar niður á hvorugu liðinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.