Orkumálinn 2024

Verið stappað á flestum tónleikunum til þessa

Ívar Andri Klausen frá Egilsstöðum er aðalsprautan í hljómsveitinni Dopamine Machine sem kemur fram á tvennum tónleikum eystra um helgina. Hann spilar einnig með þungarokkssveitinni Múr á Eistnaflugi um helgina en sú sveit heldur til Þýskalands síðar í sumar.

„Dopamine Machine er sjö manna band. Við erum með blásturshóp, tvo gítarleikara, trommur og bassa. Það verður þröngt á þingi en við höfum spilað á minna sviði,“ segir Ívar Andri um tónleika sem sveitin heldur á Aski á Egilsstöðum í kvöld.

„Við spiluðum þarna síðasta sumar. Þótt það væri enn eitthvað Covid á sveimi mætti fullt af fólki og það var geggjuð stemming,“ segir Ívar og svarar því til að hann viti ekki til þess að neitt hópsmit hafi komið upp í kjölfarið.

„Þetta var fyrsta sumarið sem við spiluðum. Við höfum fengið virkilega góðar viðtökur og eiginlega verið stappað á flestum tónleikum okkar í Reykjavík,“ segir hann.

Frítt er inn á tónleikana á Aski sem hefjast klukkan 22 en sveitin kemur síðan fram utan dagskrár á Eistnaflugi á laugadag. Ívar Andri segir sveitina spila popp með bræðingi úr ýmsum tónlistarstefnum. Ívar Andri og Norðfirðingurinn Júlíus Óli Jacobsen sömdu fyrstu lögin fyrir sveitina er þeir voru í skapandi sumarstörfum á Fljótsdalshéraði sumarið 2019.

Ívar Andri kemur síðan fram á Eistnaflugi sjálfur með þungarokkssveitinni Múr á laugardagskvöld. „Við spiluðum grjótharðan metal þótt hann sé drifinn áfram af hljóðgervlum,“ útskýrir hann.

Sú sveit er á leið til Þýskalands í byrjun ágúst til að spila á Wacken tónlistarhátíðinni en sveitin vann forkeppni hérlendis þar sem aðalverðlaunin voru að fá að koma fram á hátíðinni.

„Allir dómararnir hér, utan eins, settu okkur í fyrsta sinn sem er fáheyrt. Þessi síðasti setti okkur í annað sæti. Það var virkilega gaman,“ segir Ívar Andri sem hlakkar til að spila ytra. „Ég hef ekki spilað erlendis áður og er ógeðslega spenntur. Þetta verður örugglega svakalegt ævintýri.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.