Verðlaun í boði fyrir best skreytta gluggann og ljósmynd af myrkrinu

Efnt er til samkeppni um best skreytta gluggann í tilefni Daga myrkurs á Austurlandi og búningadags um allan fjórðung á föstudag. Hátíðin er nú haldin 22. árið í röð. 

Dagar myrkur hefjast í dag og standa til sunnudag. Hátíðin er sameiginleg byggðahátíð allra íbúa á Austurlandi sem hefur það að markmiði að leggja áherslu á viðburði sem hvetja til samveru íbúa.

Markmið hátíðarinnar er að íbúar Austurlands bjóði hverju öðru upp á skemmtilega afþreyingu í svartasta skammdeginu. Það er gert með því að búa til viðburði sem lýsa upp myrkrið, viðburði sem fela í sér rómatík, drauga, fornar hefðir í bland við nýjar um leið og við gætum að sjálfsögðu að persónulegum sóttvörnum í hvívetna.

Samkeppni í að skreyta glugga

Í ár er lagt upp með að nýta áfram margar hugmyndir sem fram komu í fyrra þegar hátíðin var endurhugsuð vegna heimsfaraldursins. Til dæmis að skreyta glugga í íbúðarhúsnæði, fyrirtækjum og stofnunum en verðlaun verða veitt fyrir best skreytta gluggann. Nokkur fyrirtæki hafa lagt til gjafabréf sem verða í vinning.

Þá er í gangi ljósmyndasamkeppni þar sem þemað er „myrkrið“. Veitt eru verðlaun upp á 50.000 fyrir fyrsta sætið.

Frestur er til að senda inn myndir í ljósmyndasamkeppnina og af gluggaskreytingum til þriðjudagsins 2. nóvember á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Fjölbreytt dagskrá um allan fjórðunginn

Margt annað verður í boði, hryllings- og draugabíó auk þess sem heimildarmyndin Hálfur álfur verður sýnd í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði. Þá verða ýmsir tónleikar, Charles Ross verður með lifandi flutning í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum sem nefnist „The Spawning Pools“ auk þess sem gestir koma úr Reykjavík svo sem Benni Hemm Hemm og Jónsi.

Á Skriðuklaustri verður blönduð dagskrá í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Óskars Halldórssonar, kennara og fræðimanns frá Kóreksstaðagerði sem meðal annars stóð fyrir nýrri útgáfu á þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar upp úr 1980.

Félagasamtök, skógræktarfélög, ferðafélög, félög eldri borgara og fleiri bjóða uppá gönguferðir, samverustundir, furðufatasjósund og innsetningar svo fátt eitt sé nefnt. Veitingastaðir og þjónustustofnanir eru með tilboð á veitingum og þjónustu. Til dæmis er hægt að fara í Neskaupstað og upplifa suður ameríska bragðaukaveislu í anda dags hinna dauðu.

Á Djúpavogi er hægt að fara í Við Voginn og smakka blóðuga eftirrétti, köngulóarmúffur, draugasúpu og fleira en í Hamarsfirði verður sviðaveisla.

Lýsum upp myrkrið

Íbúar, fyrirtæki og stofnanir eru hvött að lýsa upp sitt nánasta umhverfi og að fólk noti tækifærið og gangi um í sínum byggðakjörnum og njóti. Auk þessa er hvatt til samveru fjölskyldna, svo sem með að koma saman og skera út í grasker og/eða rófur, eins og gert var til forna.

Föstudaginn 29. október verður búningadagur í öllum fjórðungnum. Þennan dag eru fyrirtæki, skólar og aðrar stofnanir sérstaklega hvattar til að gera sér glaðan dag, hægt er að veita verðlaun innan fyrirtækja fyrir frumlegasta búninginn, fallegasta búninginn og/eða hræðilegasta búninginn.

Skipuleggjendur hvetja fólk til að taka myndir af bæði listaverkunum og búningunum og setja á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #dagarmyrkurs.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.