„Vel hægt að segja að þetta sé Austurlandsmót fyrir krakkana“

„Þetta er þriðja árið sem við höldum þetta golfmót og þó færri hafi mætt en á síðasta móti þá tókst þetta eins vel og best varð á kosið,“ segir Birgir Guðmundsson, einn skipuleggjenda eina barna- og unglingamóts í golfi á Austurlandi.

Mótið atarna, sem styrkt er sérstaklega af hálfu Kjörbúðarinnar, fór fram á Seyðisfjarðarvelli fyrir skömmu með fulltingi Golfklúbbs Seyðisfjarðar en þetta er aðeins í þriðja skiptið sem sérstakt golfmót er haldið austanlands sérstaklega ætlað börnum og unglingum.

Birgir, sem haldið hefur utan um þessi mót frá upphafi, segir að krakkarnir komi vissulega alls staðar að en syrgir að mun færri hafi sótt mótið nú en á síðasta ári.

„Það er vel hægt að segja að þetta sé Austurlandsmót fyrir krakkana því þau koma víðar en héðan frá Seyðisfirði. Fyrsta árið sem við prófuðum þetta mættu sex krakkar en ári síðar komu vel yfir 20. Að þessu sinni vorum við nokkuð færri eða tólf talsins en ég skrifa þá fækkun nú eiginlega á okkur sem skipulögðum þetta. Mótið nú var nokkuð seinna á sumrinu en fyrri mótin og foreldrar og börn komin í aðra hluti held ég. Við færum það til betri vegar á næsta ári.“

Birgir segir þó engan vafa leika á að svona mót ýti undir áhuga hjá mörgum. Til marks um það er að krakkar sem hófu golfferilinn á fyrsta mótinu séu að koma aftur og aftur. Þá geri menn í því að aðstoða krakkana, labbi með þeim og auðveldi þeim leikinn eins og hægt er.

Sigurvegari mótsins var Vilmar Óli Ragnarsson en Jóhann Páll Guðjónsson og Arnar Freyr Guðmundsson komu næstir.

Hópurinn sem tók þátt í „Austurlandsmóti“ barna og unglinga á Seyðisfirði fyrir skemmstu. Veðrið lék við keppendur og mót þetta komið til að vera. Mynd Birgir Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.