Vekja athygli á því órétti sem konur eru beittar

Systur í Soroptimistaklúbbi Austurlands standa fyrir ljósagöngu á Egilsstöðum á morgun þar sem gengið verður gegn kynbundnu ofbeldi. Systur úr klúbbnum vöktu athygli á göngunni og átakinu í verslunum á Egilsstöðum í dag.

„Fólki finnst þetta gott og þarft framtak og við vonum að það mæti sem flestir,“ segir Þorbjörg Garðarsdóttir, formaður Soroptimistaklúbbs Austurlands sem ásamt Maríu Kristmundsdóttur og Guðbjörgu Gunnarsdóttur stóð vaktina í Nettó.

Þær voru klæddar í appelsínugult sem er litur átaksins og stendur fyrir vonina um bjartari framtíðina.

„Sameinuðu þjóðirnar eru með átak frá 25. nóvember til 10. desember sem helgað er baráttunni gegn ofbeldi á konum. Soroptimistarklúbbar fengu áskorun frá forseta Evrópusambandsins, sem lesin var upp á síðasta félagsfundi okkar, um að standa fyrir aðgerðum til að vekja athygli á því órétti sem konur eru beittar út um allan heim.

Umræðan hérlendis undanfarnar vikur sýnir að þótt ástandið sé að mörgu leyti betra hér en annars staðar er enn langt í land og mikið verk að vinna.

Gangan leggur af stað frá Egilsstaðakirkju klukkan 13:00 á morgun. Gengið verður að Gistihúsinu þar sem boðið verður upp á hressingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar