Veitingastaður við golfvöllinn í Ekkjufelli
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. ágú 2024 17:41 • Uppfært 29. ágú 2024 17:43
Bætt hefur verið verulega í þjónustu og þar með upplifun golfiðkenda á Ekkjufellsvelli, félagssvæði Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs. Þar var í sumar opnaður veitingastaðurinn Tíunda.
„Við tókum þá ákvörðun í vetur að prófa að lyfta klúbbnum og starfinu á hærra plan en vissum auðvitað að allt slíkt kostar fórnfýsi og peninga. Við byrjuðum á að taka vel til í klúbbhúsinu, skúra allt og skrúbba og breyta húsinu þannig að það gæti líka verið nokkurs konar félagsmiðstöð.
Innandyra nú eru komin fyrsta flokks píluspjöld og hægt að grípa í skák auk þess sem hægt er að horfa á beinar íþróttaútsendingar.
Stærsta breytan kannski sú að ákveða að ráða mann þangað til þess bæði að taka á móti fólki og þjónusta en ekki síður til að elda góðan mat fyrir svanga hvort sem það eru kylfingar sjálfir eða aðrir gestir. Nú er hægt að koma þarna við alla daga og fá sér í svanginn auk þess að nýta hugsanlega aðra þjónustu eins og að leigja golfsett,“ segir Friðrik Bjartur Magnússon, formaður klúbbsins.
Félagsstarfið hefur líflegt sem sést meðal annars í því að félögum hefur fjölgað um meira en 20% það sem af er ári. Klúbburinn hefur að undanförnu lagt sérstaka áherslu á að fjölga konum.
„Það var áberandi og nokkuð miður að bæði á stærstu mótunum okkar í fyrra. Við höfum því verið að gera stelpugolfinu hærra undir höfði með sérstökum stelpudögum þar sem þær fá aðstoð og hjálp og þjálfun eftir óskum hverrar og einnar.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.